Fréttir

Körfubolti | 14. nóvember 2005

Evrópuleikur, frítt fyrir börn sem koma með einn fullorðinn með sér.

Á fimmtudaginn verður körfuboltaveisla í Sláturhúsinu í Keflavík, þegar Keflavík mætir BK Riga frá Lettlandi í Eurocup Challange. Leikurinn er sá fjórði hjá liðinu í ár og jafnframt sá síðasti í riðlakeppninni. Reyndar verður þetta síðasti leikur liðsins í ár ef ekki verða  hagstæð úrslit fyrir okkur. Staðan í riðlinum er er þannig að Lappeenranda er efst og er komið áfram í næstu umferð en barátan stendur á milli Keflavíkur og BK Riga. Riga vann leikinn úti með óþarflega miklum mun, því staðan í hálfleik var 48-44 fyrir heimamenn. Þriðji leikhluti var okkur að falli í þeim leik eins og reyndar hinum Evrópuleikjum okkar í ár. Lokatölur leiksins voru 99-81 og 18 stiga tap því staðreynd.

Magnús Þór Gunnarsson sem hefur átt gott tímabil í ár lauk leiknum með þriggja stiga körfu.  Sá sem þetta skrifar var á leiknum úti og mér var hugsað þegar Maggi setti niður þristinn að kannski ætti hann eftir að skipta máli þegar allt kæmi til alls. Málið er ekkert flókið, við þurfum að vinna Lettana með 19 stiga mun.  Það verður alveg öruglega ekkert auðvelt, en það er alveg möguleiki eins þeir vita sem fylgjast með körfubolta.

Nokkrir hlutir þurfa að vera í lagi. Leikmenn verða að leggja sig 100% fram og sýna að þeir vilja vera áfram í þessari keppni. Ekki detta niður á það plan að láta dómarana fara í taugarnar á sér.  Málið er að halda áfram og berjast til enda.

Áhorfendur verða að vera vel með á nótunum. Mæta sem aldrei fyrr og hvetja liðið áfram með söngvum, hrópum, lúðrum, trommum og öllu því sem hægt er að tjalda. Ég staðhæfi það hér með að stuðningsmenn Keflavíkur eru þeir bestu hér á landi og þó víðar væri leitað.  Sérstaklega átti þetta við í leikjum á móti ÍR og svo Snæfelli í fyrra þar sem stuðningur áhorfenda var sem sjötti Keflvíkingurinn inni á vellinum.

Ég hef talað um það áður að á leiknum úti í Lettlandi var mesta þögn sem ég hef upplifað á leik.  Og vonandi að það slái leikmenn Riga útaf laginu að verða fyrir mótspyrnu á vellinum sem og upp í áhorfendastúku.

Mál númer eitt er samt....... að við öll leikmenn, stuðningsmenn og stjórnarmenn hafi gaman af þessu, því það er nú einu sinni tilgangurinn með þessu öllu saman.  ÁFRAM KEFLAVÍK!!

Athugið. BÖRN á grunnskóla aldri fá frítt inn ef þau koma með einn fullorðinn með sér. Nú er málið að draga mömmu, pabba, afa og eða ömmu með sér á leikinn.

Miði á leikinn kostar aðeins 1000 krónur.

 

SB

Landsbankinn