Fjöldi stórleikja framundan - Fjörið hefst í kvöld
Um helgina verður flaggað á öllum stöngum í körfunni enda stór helgi handan við hornið þar sem nágrannaslag má finna á flestum vigstöðvum þegar helgin gengur í garð.
Upphitun helgarinnar hefst í kvöld þegar Unglingaflokkur karla tekur á móti sameiginlegu liði Snæfells/Skallagríms í sínum 5. leik á Íslandsmótinu og fer leikurinn fram í Toyota höllinni kl. 18.00. Það hefur verið á brattann að sækja fyrir drengina í þeim leikjum sem leiknir hafa verið fram að þessu og sitja þeir á botni deildarinnar eftir fjóra leiki ásamt Breiðablik með einn sigur úr fjórum leikjum. Það þarf þó ekki að örvænta enda hefur liðið verið skipað strákum úr drengjaflokki ásamt Sigmari Loga Björnssyni, en hann er sá eini af þessum peyjum sem er á unglingaflokksaldri. Snæ/Ska piltar sitja um þessar mundir í 2. sæti deildarinnar með 3. sigra úr 4. leikjum og því er það við hæfi að Keflvíkingar gyrði sína brók fyrir leikinn og stöðvi frekari framgöngu þeirra Vestlendinga. Það ætti einnig að herða okkar drengi til frekari dáða að hinn stóri og stæðilegi garpur, Almar Guðbrandsson, er kominn aftur heim eftir „víking fyrir vestann“ og „pitstopp í Grindavík“, þannig að liðið ætti að hafa meiri völd í teignum en áður.
Allir áhugamenn körfuboltans eru hvattir til að kíkja á leikinn í kvöld og hvetja drengina til dáða.
P.S. Á morgun höldum við áfram með dagskrá helgarinnar en meðal viðburða helgarinnar eru fjöllliðamót hjá Minnibolta drengja 11. ára, 7. flokki stúlkna, 10. flokki stúlkna og 9. flokki drengja, en þeir peyjar leika á heimavelli í Toyota höllinni. Þessi mót verða leikin bæði laugar- og sunnudag og ofan í þetta allt verður risaslagur í IE- deildunum þegar Njarðvíkur-stúlkur sækja okkur heim á laugardag kl. 17.00 og karlarnir á mánudagskvöldið kl. 19.15 í risa, risa-hjáleigu slag 8. umferðar. Nánar um það þegar nær dregur......