Fjölliðamót yngri flokka hefjast um helgina
Um helgina fara fyrstu fjölliðamót vetrarins fram á Íslandsmóti yngri flokka í körfubolta. Leikið er í fjölmörgum riðlum um allt land en alls leika 54 lið á 12 mótum um helgina. Keflavík á fjögur lið í keppni um helgina.
Stúlknaflokkur keppir í A-riðli og fer mótið fram í DHL höll þeirra KRinga. Stúlknaflokk skipa stelpur fæddar ´93 og ´94 en þær hafa verið gríðarlega sigursælar í gegn um tíðina og yfirleitt landað öllum þeim titlum sem í boði hafa verið í þeirra aldursflokki. Aðeins hefur kvarnast úr þessum breiða hóp fyrir tímabilið í ár en nokkrar öflugar stelpur hafa gengið nágrönnum okkar í Njarðvík á hönd, auk þess sem María Ben Jónsdóttir er farinn sem skiptinemi til USA og Kristjana Vigdís Ingvadóttir til Ítalíu. Engu að síður teflir Keflavík fram gríðarlega öflugu liði þetta árið með margar ungar stelpur sem eru orðnir fastamenn í leikmannahópi meistaraflokks. Liðið kemur til með að gera harða atlögu að þeim titlum sem í boði eru, enda er þjálfari stúlknanna er hin gamlareynda Keflavíkurkempa, Falur Harðarson, sem er einn örfárra íslendinga sem hafa spilað yfir 100 A- landsleiki.
8.flokkur kvenna er annar öflugur kvennaflokkur sem yfirleitt gengur ósigraður af leikvelli. Þær stúlkur fara til Grindavíkur til keppni í A-riðli, en þar sem þjálfari þeirra, Jón Guðmundssons er staddur erlendis vegna vinnu sinnar þennan mánuðinn, mun Björn Einarsson stjórna stelpunum. Björn hefur undanfarin ár verið við þjálfun á landsbyggðinni en er nú fluttur heim og mun í vetur gegna veigamiklu hlutverki í uppbyggingu yngri flokka Keflavíkur þar sem hann mun þjálfa bæði stráka og stelpur í 5. og 6. bekk.
11. flokkur karla fer til Akureyrar og keppir í B-riðli. Strákarnir hafa æft vel undanfarið en stór hluti hópsins kemur úr 10. flokki. Þjálfari strákanna er hinn kunni "Grindvíkingur" Pétur Guðmundsson, sem reyndar er hreinræktaður Keflvíkingur og er jafnframt aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla. Bílstjóri hópsins í Akureyrarferðinni verður unglingaráðsmaðurinn Kristján Geirsson, "Krissi lögga", þannig að um nokkuð þétta ferð verður að ræða.
8. flokkur karla leikur loks á heimavelli í Toyota höllinni í A-riðli þar sem hinn síungi reynslubolti Guðbrandur Stefánsson er mættur til leiks eftir eins árs hlé frá þjálfun og hefur sjaldan verið ferskari. Þennan flokk skipa sprækir strákar sem eru til alls líklegir, þegar sá gállinn er á þeim. Mótið hefst á laugardag kl. 12.00 og lýkur kl. 17.00. Á Sunnudag byrjar mótið kl. 9.00 og lýkur kl. 14.00.
Unglingaflokkur karla á síðan hörkuleik gegn FSu í unglingaflokki karla á laugardaginn kl. 17.00 þegar geysisterkt lið þeirra kemur í heimsókn í Toyota höllina. Meðal leikmanna gestanna er hinn stórefnilegi leikmaður Valur Valsson sem er hreinræktað afsprengi Keflvíkinga & Njarðvíkinga þegar kemur að genablöndun á afreksviði í íslenska körfuboltaheiminum. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að Keflavíkurdrengir munu væntanlega leggja sig fram um að taka þá sunnlendinga til bæna í þetta skiptið, enda heimavöllurinn í húfi með tilheyrandi stolti & stálvilja..........
Allir Keflvíkingar hvattir til að kíkja í Toyota höllina um helgina, fá sér kaffi og kleinu í nýju veitingasölunni á 2. hæð & hvetja okkar drengi til dáða.
ÁFRAM KEFLAVÍK - .....Enn sem Áður.....
Unglingaráð