Fréttir

Karfa: Yngri flokkar | 21. janúar 2011

Fjölliðamótin hefjast á nýjan leik um helgina

Fjölliðamót yngri flokka á Íslandsmótinu hefjast á nýjan leik um helgina þegar í 3. og næst síðusta umferð hefst.  Ekkert mótanna fer fram á heimavelli í þetta skiptið. Einnig leikur Unglingaflokkur karla gegn Fjölni á laugardaginn kl. 17.00 og fer leikurinn fram í Toyota höllinni.

Dagskrá helgarinnar í 3. umferð Íslandsmótsins:

8. flokkur stúlkna fer í sveitasæluna á Flúðum og leikur í A-riðli sem þær unnu örugglega í 1. og 2. umferð.  Ekki er reiknað með öðru en stúlkurnar haldi uppteknum hætti enda úrvalshópur þarna á ferðinni sem þekkir ekkert nema sigur í hverjum leik.

Stelpurnar leika á laugardeginum gegn Hrunamönnum kl. 14.00 og KR kl. 17.00.  Á sunnudeginum verður leikið gegn Grindavík kl. 11.00 og síðasti leikur mótsins verður gegn erkifjendunum í Njarðvík kl. 13.00.

Stúlknaflokkur fer yfir lækinn og heimsækir Ljónagryfjuna í A-riðli.  Stelpurnar léku vel í 2. umferð í Grindavík og unnu mótið með öruggum sigri í öllum sínum leikjum. Falur Harðarson þjálfari stúlknanna hyggst eflaust halda uppteknum hætti, og tryggja stúlkunum þannig heimavallarréttinn í fjórðu og síðustu umferð.

Stúlkurnar hefja leik á laugardagsmorgni gegn Njarðvík kl. 9.30 og leika síðan við Grindavík kl. 12.00.  Á sunnudaginn leika þær við Val kl. 13.15 og að lokum við Hauka kl. 15.45

8. flokkur drengja fer í Smárann og leikur í B-riðli.  Strákarnir léku fyrstu tvær umferðinar í A-riðli en náðu engan veginn að sýna sitt rétta andlit í 2. umferð í Þorlákshöfn og töpuðu öllum leikjunum. Þeir eiga þó, á góðum degi, vel heima í A riðli, en til að halda sér þar þarf að hafa smá blóðbragð í munninum og vinna a.m.k. einn til tvo leiki. Vonandi eru drengirnir staðráðnir í að taka B riðilinn með trompi um helgina og hífa sig upp á nýjan leik á meðal þeirra bestu í sínum aldursflokki.

Drengirnir leika á laugardag gegn ÍR kl. 13.30 og Stjörnunni kl. 16.30.  Á sunnudag leika þeir gegn Breiðablik kl. 11.00 og að lokum kl. 13.00 gegn Haukum. 

11. flokkur drengja átti sömuleiðis dapra helgi í 2. umferð þrátt fyrir að leika á heimavelli í Toyota höllinni.  Þeir áttu einn og einn þokkalegan leikhluta í þeirri umferð en voru á heildina litið, fjarri sínu besta, og töpuðu öllum leikjunum, flestum þó með litlum mun.  Þeir leika því í C riðli um helgina og fer mótið fram í Vodafone höllinni.

Drengirnir leika á laugardaginn gegn Valsmönnum kl. 9.30 og á sunnudaginn verður leikið gegn Stjörnunni kl. 10.00 og að lokum gegn liði Ármanns kl. 12.30.