Fréttir

Körfubolti | 29. mars 2007

Fjórði leikur í Grindavík á föstudag

Baráttan heldur áfram hjá stelpunum á föstudagskvöldið en þá fer fram fjórði leikurinn milli Keflavíkur og Grindavíkur. Áhorfendur hafa fengið mikið fyrir peningin og leikirnir hafa verið allt í senn fjörugir, spennandi og dramantískir. Okkar stelpur leiða í einvíginu og geta með sigri í Röstinni komist áfram í úrslit. Staðan í hinu einvíginu er sú sama en þar leiða Haukastelpur 2-1 og geta klárað dæmið í Kennaraháskólanum í kvöld.

Kesha hefur verið að spila mjög vel í leiknum þremur og í síðasta leik var hún með 25 stig.  Kara hefur átt góða leiki varnarlega en var einnig mjög góð sóknarlega í síðasta leik og var með 20 stig ásamt því að taka 12 fráköst. Bryndís og María hafa einnig átt mjög stöðuga leiki og reynsla Birnu kemur sér vel.

Grindvíkingar leika án Tömuru Bowie sem þurfti frá að hverfa vegna veikinda heima fyrir.  Leit að nýjum leikmanni stendur yfir.

Að sjálfsögðu treystum við á stuðning áhorfenda. Áfram Keflavík.

 

Bryndís í baráttu í teignum í síðasta leik. Mynd jbo@vf.is