Fjörið heldur áfram um helgina með fjölmörgum leikjum
Fjölliðamót yngri flokka halda áfram á Íslandsmótinu um helgina og mæta fjórir eldsprækir flokkar frá Keflavík til leiks á hinum ýmsu stöðum.
10. flokkur kvenna fer yfir lækinn og leikur í Ljónagryfjunni í A-riðli. Þótt ekki séu margar stelpur að æfa í þessum árgangi, þá eru þær góðar. Öflugir leikmenn úr 9. flokki fylla síðan í þær stöður sem upp á vantar og hafa þessar stelpur landað mörgum titlunum. Stúlkurnar hafa nýjan þjálfara í ár, Jón Guðmundsson, en þar sem hann er staddur í Kínaveldi þennan mánuðinn vegna vinnu sinnar þá mun sá mæti drengur Hörður Axel Vilhjálmsson stýra stúlkunum.
7. flokkur kvenna fer yfir minnst fjóra læki og alla leið í sveitasæluna á Flúðum. Þessar stelpur eru ríkjandi Íslandsmeistarar í sínum árgangi og leika þar af leiðandi í A-riðlil. Þjálfari stúlknanna líkt og undanfarin ár er áðurnefndi Kínavinurinn Jón Guðmundsson, en vegna fjarveru hans mun máttarstólpi úr foreldrahópnum, Snorri Jónsson, stýra liðinu.
9. flokkur drengja er minnsti árgangurinn sem æfir körfubolta í Keflavík. Einunguis þrír virkir iðkendur eru í þessum flokki og fá þeir fyrir vikið liðsstyrk úr öflugum hópi drengja úr 8. flokki. Það merkilega er, að sami árgangur hjá Njarðvík er enn minni, þannig að eitthvað hafa guðirnir fengið nóg af körfubolta á því herrans ári 1996, þegar hvorki Keflavík né Njarðvík tókst að landa titli í karlaflokki. Þessir strákar æfa með 10. og 11. flokki hjá Pétri Guðmundssyni en félagsmálatröllið úr Garðinum, Guðbrandur Stefánsson þjálfari 8. flokks, mun stýra drengunum á Íslandsmótinu í vetur, en þeir hefja leik í B-riðli.
Minnibolti 11. ára drengja er óskrifað blað, enda eru peyjarnir að leika í fyrsta skipti á Íslandsmóti um helgina. Þeir hefja leik í A-riðli og ekki skemmir stemminguna að mótið fer fram á heimavelli í Toyota Höllinni. Fyrsta viðureign helgarinnar verður við erkifjendur okkar og nágranna í Njarðvík. Það er því kjörið tækifæri fyrir bæjarbúa að reka inn nefið, fá sér kaffi & kleinu í nýju félagsaðstöðunni og hvetja drengina til dáða. Mikil eftirvænting er í hópnum fyrir helgina og hafa þeir æft vel undanfarið undir stjórn Björns Einarssonar. S.l. miðvikudag léku þeir æfingaleik við stelpurnar í Mb. 11 ára sem Björn þjálfar einnig og má lesa magnaða frásögn þjálfarans á bloggi flokksins hér en leikurinn var vægast sagt æsispennandi og tvísýnn fram á loka sekúndu. Stelpurnar leika síðan á sínu fyrsta Íslandsmóti um mánaðarmótin.
Dagskráin í Toyota höllinni um helgina í Mb. 11. ára drengja er annars eftirfarandi:
Laugardagur 23. okt.
11.00 Keflavík – Njarðvík
12.00 KR – Stjarnan
13.00 Keflavík – Reykdælir/Skallagrímur
14.00 Njarðvík – Stjarnan
15.00 KR - Reykdælir/Skallagrímur
Sunnudagur 24. okt.
09.00 Keflavík – Stjarnan
10.00 Njarðvík – Reykdælir/Skallagrímur
11.00 Keflavík – KR
12.00 Reykdæli/Skallagrímur – Stjarnan
13.00 KR - Njarðvík