Fréttir

Karfa: Karlar | 11. nóvember 2011

Flautukarfa tryggði Keflavík sigur

Það var líf og fjör í Toyota Höllinni í gær þegar Þór Þorlákshöfn mætti í heimsókn, en þeir eru nýliðar í Iceland Express deild karla. Fáir vissu í raun við hverju var að búast fyrir leikinn, þar sem Þórsarar hafa komið verulega á óvart í deildinni með þéttum leik. Svo fór að úrslitin réðust ekki fyrr en með flautukörfu frá Charles Parker og lokatölur 93-92.

Karfan.is var með góða samantekt á leiknum í kvöld og látum við hana fylgja hér:

Charlie Parker átti síðasta orðið í Toyotahöllinni í kvöld. Hann læddist um eins og músin fram á síðustu sekúndu leiksins í bókstaflegri merkingu en kom svo og setti niður 2 mikilvægustu stig leiksins, stigin sem skiluðu Keflvíkingum sigri á spræku liði Þór. 93:92 var lokastaðan í Toyotahöllinni í mögnuðum leik.
Keflvíkingar fóru af stað af miklu krafti og voru á fyrstu 2 mínútum leiksins komnir í 12 stiga forskot.Þeir skoruðu nánast af vild og höfðu strax í fyrsta fjórðung sett niður 29 stig á móti 18 frá gestunum.  Gestirnir náðu hinsvegar að bíta frá sér í öðrum leikhluta og minnkuðu muninn niður í 9 stig þegar flautað var til hálfleiks. 
 
Keflavíkurlestinn hélt svo af stað í seinni hálfleik af miklum krafti að nýju og voru á tímabili komnir með 17 stiga forystu. En gestirnir úr Þorlákshöfn gáfust ekki upp. Keflvíkingar lentu hinsvegar í hremmingum þegar Magnús Þór Gunnarsson fékk högg á læri og þurfti að yfirgefa völlinn. Skömmu síðar virtist Arnar Freyr Jónsson togna á nára og yfirgaf hann völlinn einnig. Magnús hinsvegar snér aftur í þann mun sem Arnar fór útaf og kom strax inná og setti niður tvo þrista og jók muninn í 16 stig. 
 
Þarna hafa Keflvíkingar líkast til haldið að björninn væri unninn. En þeir grænklæddur voru hinsvegar á öðru máli. Þeir söxuðu jafnt og þétt á forskot heimamanna. Sóknarleikur Keflavíkur var hrein skelfing í lokafjórðungnum þar sem aðeins einn maður virtist hafa "pung" í það að vilja skjóta boltanum. Einnig vakti það mikla furðu að þeir leituðu ekki meira inn á Jarryd Cole sem hafði verið nokkuð öflugur að koma tuðrunni oní á blokkinni.  
Á síðustu metrunum voru svo Þórsarar komnir 2 stigum yfir og allt stefndi í hörku loka mínútu á leiknum (sem svo raunin varð)  Magnús Þór Gunnarsson sem jafnan er með risavaxið stell þegar kemur að svona aðstæðum brást ekki og setti niður þrist þegar um 25 sekúndur voru eftir og kom Keflavík í 1 stigs forystu.  Þórsarar hófu svo sókn og voru ekki langt frá því að skora en Sigurður Gunnarsson náði frákastinu en missti boltann útaf.  Í raun var brotið harkalega á honum (undirritaður var í stúkusæti fyrir þetta atvik)  en ekkert dæmt af annars ágætum dómurum leiksins. 3 sekúndur til loka þegar Þór tekur innkast undir körfu Keflavíkur. Kerfið rúllaði og Mike Ringold fær boltann undir körfunni og skorar, Þórsarar leiða með einu stigi og 1.30 sekúnda eftir.  Keflavík tekur leikhlé og í kjölfarið innkast frá miðju.  Kerfið hjá þeim rúllar og augljóslega var þeirra fyrsti kostur Magnús Þór, en öfugumegin á vellinum frá innkastinu stóð Charlie Parker einn og óvaldaður og fékk knöttinn í stökkskot og setti tuðruna í netið og tryggði Keflavík sigurinn, tuska í andlitið á Þórsurum sem höfðu barist hart að því að ná sigrinum. 
 
Hjá Þór var Darren Govens að spila feykilega vel og setti niður 26 stig. Gríðarlega sterkur leikmaður þar á ferð. Njarðvíkursendinginn til Þorlákshafnar Guðmundur Jónsson var við suðumark á tímapunkti og skoraði grimmt á lokasprettinum. Hann kláraði með 23 stig. 
 
Hjá Keflavík var Magnús Þór sem var þeirra stigahæstur með 26 stig. Næstur honum var Jarryd Cole með 23 stig og svo Steven Gerard með 19 stig 7 stoðsendingar og þær nokkrar af dýrari týpunni. 
 
Charlie Parker hélt áfram að vinna hart að því að fá sem fyrst flugmiðann sinn aftur heim til Bandaríkjanna með arfaslökum leik. Lokaskot hans í leiknum gæti hinsvegar frestað þeirri ferð eitthvað. 
 
Stigaskor Keflavíkur:
Magnús Þór Gunnarsson 26, Jarryd Cole 21, Steven Gerard 19, Charles Parker 8, Almar Guðbrandsson 6, Valur Orri Valsson 5, Arnar Freyr Jónsson 4, Sigurður Friðrik Gunnarsson 2 og Gunnar Stefánsson 2.