Flautukarfa tryggði Keflavík sigur
Það er óhætt að segja að áhorfendur hafi fengið góða skemmtun fyrir peninginn þegar Keflavík og Njarðvík áttust við í dag
í fyrsta leik úrslitaeinvígis Iceland Express deild kvenna. Leikurinn var bráðfjörugur, æsispennandi og með vænni slettu af
hágæða dramatík undir leikslok. Lokatölur leiksins voru 74-73 eftir flautukörfu frá Lisu Karcic.
Þær grænklæddu byrjuðu leikinn betur og náðu yfirhöndinni á fyrstu mínútunum. Keflavík kom þó til baka og jafnaði leikinn
eftir um 6 mínútur. Leikurinn var nokkuð jafn fram að hálfleik, en Njarðvík var þó með yfirhöndina á kafla og fóru þær með
forystu í hálfleik 34-38.
Í seinni hálfleik voru bæði lið að skipta forystunni á milli sín og allt gjörsamlega í járnum. Keflavík leiddi leikinn 72-70 þegar
tæp mínúta var eftir og hélt í sókn. Sú sókn fór forgörðum og Njarðvík brunaði upp völlinn. Boltinn barst að lokum til
Ditu Liepkalne, sem var galopin og skoraði ískalda þriggja stiga körfu. Þó hafði Birna Valgarðs lent í samstuði og lá meidd
fyrir framan hana á gólfinu. Staðan því 72-73 og tæpar 6 sekúndur eftir. Keflavík tók leikhlé og átti svo innkast frá miðju.
Boltanum var komið inn á Marinu Caran sem keyrði með hliðarlínum undir körfuna og kastaði boltanum frá sér í fangið á
Juliu Dermier. Hún náði ekki að grípa boltann og Lisa Karcic kom á fullri ferð, greip boltann upp úr gólfinu og lagði hann ofan
í með lay-up skoti um leið og flautan gall. Allt ætlaði um koll að keyra í húsinu og gríðarlegur fögnuður braust út meðal
leikmanna og stuðningsmanna.
Það er ljóst að jafn mikil dramatík hafi ekki sést í langan í Toyota Höllinni í kvennaboltanum. Frábær skemmtun í alla staði
og ekki leiðinlegt að vinna leikinn með flautukörfu.
Stigaskor dagsins:
Keflavík: Marina Caran 28, Lisa Karcic 15/9 fráköst/9 stolnir/3 varin skot, Bryndís Guðmundsdóttir 12/10 fráköst,
Pálína Gunnlaugsdóttir 9, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 6/5 fráköst/5 stoðsendingar, Hrund Jóhannsdóttir 2,
Ingibjörg Jakobsdóttir 2.
Njarðvík: Shayla Fields 29/7 fráköst/6 stoðsendingar, Julia Demirer 18/14 fráköst, Dita Liepkalne 15/14 fráköst,
Ólöf Helga Pálsdóttir 6, Ína María Einarsdóttir 3, Anna María Ævarsdóttir 2.
Næsti leikur fer fram í Njarðvík á þriðjudag kl. 19:15. Allir eru hvattir til að mæta og styðja við bakið á Keflavík!
Mikill fögnuður braust út hjá Keflavík eftir sigurkörfuna (mynd: vf.is)