Flenging í Keflavík - KR leiðir 2-0
Keflvíkingar máttu þola harða útreið í kvöld þegar KR mætti í heimsókn. Leikurinn var nr. 2 í 4-liða úrslitum karla, en KR-ingar höfðu sigur í leiknum 87-105. Keflvíkingar voru langt frá sínu besta og þurfa heldur að styrkja sinn leik fyrir næstu viðureign. Vefsíðan karfan.is var með mjög ítarlega úttekt á leiknum og verður hún nýtt hér:
KR batt í kvöld enda á 11 leikja heimasigurgöngu Keflavíkur þegar röndóttir tóku 2-0 forystu í undanúrslitaeinvíginu með 87-105 stórsigri í Toyota-höllinni. Gestirnir úr Reykjavík fóru á kostum í fjórða leikhluta sem þeir unnu 17-32. Marcus Walker átti enn einn stórleikinn í liði KR með 31 stig og nú dugir KR sigur á heimavelli á föstudag til að tryggja sér sæti í úrslitum deildarinnar.
Sama hvað heimamenn í Keflavík reyndu að skjóta sig í gang í kvöld gekk hvorki né rak og heimamenn luku leik með 16,7% þriggja stiga nýtingu og 63% vítanýtingu. Þessi dræma nýting og óvissa í varnarleik heimamanna gerði KR hægt um vik að sprengja sér leið að Keflavíkurkörfunni og þegar allt var í járnum seig KR örugglega fram úr til að landa sigrinum.
Í upphafi leiks gerðu Vesturbæingar sjö fyrstu stig leiksins áður en Hörður Axel Vilhjálmsson kom Keflvíkingum á blað með þriggja stiga körfu. Vesturbæingar höfðu undirtökin allan fyrsta leikhluta þar sem Pavel Ermolinskij og Brynjar Þór Björnsson sáu um stigaskorið og vörnin... hún var bara óþarfur aukahlutur þessar fyrstu tíu mínútur hjá báðum liðum.
Brynjar Þór kom KR í 20-28 með þrist og heimamenn svöruðu í sömu mynt strax í næstu sókn, hraður fyrsti leikhluti og allt virtist detta niður. KR leiddi 28-34 að leikhlutanum loknum, ekki amalegt að fá 62 stig á 10 mínútum. Pavel og Brynjar voru með 9 stig hjá KR en Sigurður Þorsteinsson 8 hjá Keflavík og Hörður Axel 7.
Thomas Sanders saxaði á forskot KR í upphafi annars leikhluta með körfu og villu að auki, staðan 33-34 og heimamenn byrjuðu 9-2 fyrstu fjórar mínúturnar eða svo og Marcus Walker utan vallar í liði KR.
Um leið og Marcus ,,The Bullet“ Walker kom inn í KR liðið í öðrum leikhluta varð kúvending á leik liðsins. Reyndar komu Fannar Ólafsson, Finnur Magnússon og Skarphéðinn Ingason sér í villuvandræði en það sakaði ekki þar sem Hreggviður Magnússon gerði vel í fjarveru þeirra og setti niður 10 stig.
Heimamenn áttu engin svör við Walker þessar síðustu sex mínútur í öðrum leikhluta, maðurinn skoraði nánast þegar honum hugnaðist og með tveimur þristum í röð breytti hann stöðunni í 40-46 KR í vil. Heimamenn að sama skapi voru ískaldir fyrir utan þriggja stiga línuna og vélbyssa á borð við Magnús Þór Gunnarsson sem fékk galopið skot hitti ekki hringinn og heimamenn héldu inn í hálfleik með tvo þrista í 13 tilraunum!
Staðan í leikhléi var 45-54 KR í vil þar sem Marcus Walker var kominn með 20 stig hjá KR og Brynjar Þór Björnsson 11. Hjá Keflavík var Thomas Sanders með 14 stig og Sigurður Gunnar Þorsteinsson 11 og Keflvíkingar ekki lausir við villuvandræðin síður en gestirnir, Gunnar Einarsson og Andrija Ciric báðir með þrjár villur í liði heimamanna.
Vesturbæingar virtust ætla að síga fram úr Keflavík í upphafi síðari hálfleiks en heimamenn splæstu fljótt í 10-0 áhlaup og komust síðar í 62-60 eftir mjög svo velkominn þrist frá Andrija Ciric en heimamenn voru ískaldir í þristunum að þessu sinni.
Seint í þriðja leikhluta fékk Fannar Ólafsson sína fjórðu villu í liði KR en það kom ekki að sök þar sem röndóttir leiddu 70-73 með 8-13 kafla undir lok leikhlutans.
Brynjar Þór Björnsson setti KR þrist í upphafi fjórða, staðan 74-81 og skömmu síðar kom Skarphéðinn Freyr Ingason með annan og staðan 74-84. Keflavíkurvörnin var klaufaleg í fjórða leikhluta, eins og menn virtust ekki vita hvort þeir ætluðu að skipta á skrínum eða ekki og oft fengu KR-ingar auða leið upp að körfunni fyrir vikið eða galopið skot, uppskrift að sigri.
Fjórði leikhluti fór 17-32 fyrir KR og það var alveg sama hvað Keflavík henti í áttina að gestum sínum, þeir átu það upp og lönduðu öruggum sigri, 87-105 en það kom til smá ryskinga áður en lokaflautið gall en þó sluppu menn við vísanir úr húsi þó það hafi nokkrum sinnum staðið tæpt.
Annan leikinn í röð voru það Pavel Ermolinskij og Marcus Walker sem fóru illa með Keflvíkinga, saman gerðu þeir 48 stig, tóku 23 fráköst og gáfu 11 stoðsendingar, ekki amalegt dagsverk hjá ,,tvíhöfða skrímslinu Marculinskij.“ (Pavel 17/15/8 og Marcus 31/8/3).
Hjá Keflavík var Sigurður Gunnar Þorsteinsson með 21 stig og 13 fráköst og Thomas Sanders bætti við 18 stigum og 3 fráköstum.
Byrjunarliðin:
KR: Pavel Ermolinskij, Marcus Walker, Brynjar Þór Björnsson, Finnur Magnússon og Fannar Ólafsson.
Keflavík: Hörður Axel Vilhjálmsson, Thomas Sanders, Gunnar Einarsson, Andrija Ciric og Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
Heildarskor:
Keflavík: Sigurður Gunnar Þorsteinsson 21/13 fráköst, Thomas Sanders 18, Andrija Ciric 16, Magnús Þór Gunnarsson 8/7 stoðsendingar, Hörður Axel Vilhjálmsson 7/4 fráköst/8 stoðsendingar/6 stolnir, Gunnar Einarsson 6/6 fráköst, Elentínus Margeirsson 5, Jón Nordal Hafsteinsson 4, Þröstur Leó Jóhannsson 2, Gunnar H. Stefánsson 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Halldór Örn Halldórsson 0/4 fráköst.
KR: Marcus Walker 31/8 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 17/4 fráköst, Pavel Ermolinskij 17/15 fráköst/8 stoðsendingar/5 stolnir, Hreggviður Magnússon 10, Fannar Ólafsson 9/6 fráköst, Skarphéðinn Freyr Ingason 8, Finnur Atli Magnússon 6/5 fráköst, Ágúst Angantýsson 4, Jón Orri Kristjánsson 2/7 fráköst, Ólafur Már Ægisson 1, Martin Hermannsson 0, Páll Fannar Helgason 0.
Dómarar: Rögnvaldur Hreiðarsson, Björgvin Rúnarsson
Eftirlitsdómari: Guðni Eiríkur Guðmundsson
Keflvíkingar þurfa nú að bæta sinn leik og koma sterkir til baka. Allt er mögulegt ef viljinn er fyrir hendi. Og ef einhverjir þekkja það að vera 2-0 undir og koma til baka með 2-3 sigur - þá eru það Keflvíkingar. Fjölmennum á næsta leik og hvetjum strákana til dáða! Leikurinn fer fram í DHL höllinni á föstudaginn næstkomandi kl. 19:15.