Flottur sigur á Fjölnisstúlkum í gær
Keflavíkurstúlkur áttu harm að hefna í gær þegar þær mættu Fjölnisstúlkum í Iceland Express deild kvenna, en fyrri leikur liðanna var einmitt fyrsti leikurinn í Iceland Express deild kvenna og þar fóru Fjölnisstúlkur með sigur af hólmi óvænt. Keflavíkurstúlkur eru búnar að vera á mikilli sigurgöngu eftir þann leik og unnið alla sína leiki, eða 6 fyrir leikinn í gær. Þær gáfu ekkert eftir og framreiddu þægilegan sigur 82-74.
Gestunum var engin miskun sýnd, en Keflavík náði 11-2 forskoti eftir nokkurra mínútna leik. Þær leiddu 26-10 eftir fyrsta leikhluta. Annar leikhluti var ekkert frábrugðinn og var bætt í forskotið, en staðan í hálfleik var 47-28.
Seinni hálfleikurinn var þægilegur og náðu Fjölnisstúlkur aldrei að klóra almennilega í bakkann. Svo fór að ungu stelpurnar hjá Keflavík fengu að spreyta sig í 4. leikhluta, en þó var leikur þeirra ekki upp á marga fiska, þar sem Fjölnisstúlkur skoruðu 33 stig gegn einungis 6 hjá Keflavík í síðasta leikhlutanum. En sigurinn var löngu dottinn í hús og lokatölur 82-74 fyrir Keflavík, en þetta var 7. sigur þeirra í röð takk fyrir.
Hjá Keflavík var Pálína Gunnlaugsdóttir með 19 stig. Birna Valgarðsdóttir var með 18 stig. Jaleesa Butler var með 15 stig, 13 fráköst, 10 stoðsendingar og 9 varin skot.