Fréttir

Körfubolti | 11. apríl 2007

Frá Agnari Mar Gunnarssyni, aðstoðarþjálfara kvennaliðsins

Í tilefni af leiðindaatviki sem átti sér stað eftir leik Hauka og Keflavíkur í gærkveldi vil ég biðjast innilegrar afökunar á því sem ég gerði. Í hita leiksins og í hugsunarleysi hljóp ég á mig og stjakaði við Helenu Sverrisdóttur, en ég vona og treysti að ég hafi ekki unnið henni mein. Það er andstætt mínum karakter að standa í hvers lags stappi eða leiðindum og er ég miður mín yfir þessu atviki. Ég hef haft samband við Helenu og aðstandendur og beðist afsökunar á framferði mínu. Afsökunarbeiðninni var tekið jákvætt og er málinu lokið frá hendi Hauka og Helenu, eins og segir á heimasíðu Hauka. Atvikið hefur verið kært til aganefndar af dómurum leiksins og að sjálfsögðu hlýti ég niðurstöðu aganefndar í málinu.

Ég vona að þetta verði úr sögunni sem fyrst og að leikmenn og stuðningsmenn geti einbeitt sér að því frábæra einvígi sem þessi skemmtilegu kvennalið, Haukar og Keflavík, heyja nú um Íslandsmeistaratitilinn.

Með körfuboltakveðju,

Agnar Mar Gunnarsson