Fréttir

Karfa: Yngri flokkar | 10. apríl 2011

Frábær helgi og 2 stórir Íslandsmeistaratitlar í hús

Keflavík átti tvo flokka í undanúrslitum Íslandsmóts yngri flokka um helgina og skemmst er frá því að segja að báðir fóru þeir alla leið og lönduðu titlinum stóra og eftirsótta. Hægt var að fylgjast með öllum leikjum dagsins í beinni netútsendingu aug þess sem lifandi tölfræði var einnig í beinni.

10. flokkur kvenna mætti liði Breiðabliks í undanúrslitum á laugardag og vann góðan sigur 48-38. Þær mættu síðan Grindavík í úrslitaleik í morgun og unnu afgerandi sigur, 71-31 þar sem Sara Rún Hinriksdóttir var valin maður leiksins með 14 stig, 13 fráköst og 4 varin skot.

Unglingaflokkur kvenna mætti Haukum í hörkuleik í undanúrslitum á laugardag og unnu eins stigs sigur 54-53.  Þær mættu síðan ósigruðu liði Snæfells í úrslitaleik í dag og gerðu það sem fæstir reiknuðu með og fóru með sigur af hólmi eftir frábærlega jafnan og skemmtilegan leik.  Lokatölur 72-70 þar sem Telma Lind Ásgeirsdóttir skoraði sigurkörfuna þegar 1 sek. var eftir af leiknum.  Eva Rós Guðmundsdóttir var valin maður leiksins með 17 stig, 11 fráköst og 8 stoðsendingar.

Frábært hjá stúlkunum og til hamingju allar saman.  Nánari umfjöllun síðar á keflavik.is/karfa.  Sjá má myndir af sigurvegurunum á www.kki.is auk þess sem www.karfan.is mun eflaust verða með myndasöfn og umfjöllun að hætti hússins.

Keflavík hefur þar með unnið Íslandsmeistaratitilinn í öllum þeim kvennaflokkum þar sem leikið hefur verið um titilinn þetta tímabilið en um næstu helgi fara fram undanúrslit og úrslit síðustu flokkunum þar sem 9.flokkur stúlkna og Stúlknaflokkur mæta til leiks.