Fréttir

Körfubolti | 8. nóvember 2003

Franska PRO A deildin er alvöru atvinnumannadeild

Í næstu viku heldur Keflavík til Toulon á frönsku rívíerunni til að etja kappi við félagsliðið Hyeres Toulon VAR sem er sameinað félag úr tveimur borgum, Hyeres og Toulon. Við skulum aðeins skoða deildina frönsku sem Toulon keppir í til að sjá hvaða umhverfi við erum að fara inn í.

 

Franska PRO A deildin gildir sem eins sterkasta deildin í Evrópu, ásamt Ítalíu, Spáni, Grikklandi, Tyrklandi, gömlu Júgóslavíu og Rússlandi. Einnig eru deildirnar í Þýskalandi, Litháen o.fl. sterkar.

 

Í PRO A leika 18 félög. Helsta stórveldið er Pau Orthez sem er núverandi meistari og hefur orðið 8 sinnum meistari á síðustu 15 árum. Pau er eitt af stórveldunum í Evrópu. Önnur afar sterk félög eru Villaurbanne, Le Havre, Nancy og Dijon. Flest frönsku félögin taka auk þess þátt í keppnum á Evrópuvettvangi.

 

Töluverðir peningar eru í frönsku deildinni og má geta þess að kostnaðaráætlanir frönsku félganna eru á bilinu 150 milljónir kr. til 650 milljónir kr. (Pau Orthez). Ef þetta er borið saman við þær 500 þús. kr. sem er mánaðarlegt launaþak á Íslandi má sjá að þetta er allt allt annað umhverfi. Heildarkostnaðaráætlun meistaraflokksliðs Keflavíkur er innan við 15 milljónir kr., þannig að dýrasta íslenska liðið (vegna Evrópukeppni) kostar aðeins 10% af ódýrasta franska liðinu, og aðeins um 2,5% af því dýrasta!

 

Aðsókn er líka góð í Frakklandi, hallirnar eru stórar og yfirleitt eru um 2-5 þúsund manns á leikjum. Ljóst er að um alvörudeild er að ræða og gaman fyrir okkar menn að hasla sér völl á þessum vettvangi.