Fréttir

Karfa: Konur | 28. janúar 2009

Fréttir af Keflavík B og 1. deild kvenna

Keflavík hefur í vetur teflt fram b-liði í 1. deild kvenna.  Markmiðið með þátttökunni er fyrst og fremst að efla og styrkja yngri stelpur félagsins og þá sérstaklega 10. flokk kvenna en það var fyrrverandi þjálfari stúlknanna, Margrét Sturlaugsdóttir, sem lagði fram hugmyndina og náði að sannfæra foreldra stúlknanna um að þetta væri nauðsynlegt „næsta skref“ á þeirra körfuboltaferli.  Þarna hafa stelpurnar fengið tækifæri til að glíma við eldri og þroskaðri stelpur þar sem líkamleg fyrirstaða er öllu meiri en í þeirra aldursflokki.  Og þær hafa staðið sig frábærlega.  Þegar leiknar hafa verið níu umferðir  sitja þær á toppnum ásamt Njarðvíkingum með 14 stig, hafa unnið sjö leiki og tapað tveimur. 

 

Kostnaður við þessa þátttöku er talsverður og hafa stelpurnar sjálfar tekið drjúgan þátt í honum með aðstoð frá unglingaráði og vinnuframlagi á leikjum fyrir meistaraflokk kvenna.  Þjálfari þeirra er Jón Guðmundsson og aðstoðarþjálfari Kolbeinn Skagfjörð, en þeir snillingar þjálfa einnig Stúlknaflokk og 10. flokk kvenna ásamt 5. og 6. bekk.

 

S.l. laugardag léku stelpurnar gegn Ármanni en þær eru í þriðja sæti deildarinnar.  Skemmst er frá því að segja að lið Ármanns sá aldrei til sólar í leiknum og Keflavík vann stórsigur 103-59. Í lið Ármanns vantaði þeirra sterkasta leikmann, hina Áströlsku Taniu, en auk þess fengu okkar stelpur aukalegan liðstyrk þar sem meistaraflokks leikmennirnir Bryndís Guðmundsdóttir og Marín Rós Karlsdóttir léku með liðinu að þessu sinni.  Þær hafa átt í langvarandi meiðslum en eru óðum að komast í sitt fyrra form og verða vonandi öflugar með meistaraflokki félagsins á lokaspretti tímabilsins.  Þetta var annar leikur þeirra með liðinu í vetur en að jafnaði er liðið skipað leikmönnum 10. flokks (f.93 og ´94) auk þeirra Ástrósar Skúladóttir og Lóu Dísar Másdóttir (f.´91) sem báðar hafa leikið sjö af níu leikjum mótsins.

 

Sem áður segir, miklir yfirburðir í síðasta leik, og fyrir vikið ekkert í líkingu við fyrri háspennuleik liðanna í Keflavík sem lyktaði með eins stigs sigri heimamanna 63-62.  Allar stelpurnar fengu að spreyta sig og allar tólf komust á blað með tvær körfur eða meira.

 

Keflavík b - Ármann/Þróttur

103-59 (24-6, 51-20, 78-42)

Stigaskor Keflavíkur:

Bryndís 23, Telma Lind 14, María Ben 11, Marín 10, Árnína 9, Ástrós 7, Eva Rós 7, Lóa Dís 6, Árný, Erna, Sigrún og Soffía Rún skoruðu allar 4 stig.

Vítanýting 17/26 eða 65,4%

 

Næsti leikur í deildinni er útileikur við Skallagrím n.k. sunnudag kl. 16.00 en hann átti að fara fram á laugardeginum  og hefur því verið færður um sléttan sólarhring.