Fréttir af yngri flokkum karla
Nú þegar körfuknattleikstímabilið er hálfnað er rétt að renna aðeins yfir árangur og stöðu yngri flokka Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur.
Unglinga- og drengjaflokkur keppa í deildarkeppni þar sem leiknir eru stakir leikir líkt og í meistaraflokkunum. Aðrir flokkar keppa á helgarmótum þar sem allir flokkar keppa á minnst fjórum slíkum mótum.
Í fjórum yngstu flokkunum er fimmta helgarmót A-liða úrslitamót þar sem efsta lið verður Íslandsmeistari.
Í 9. flokki og eldri keppa fjögur efstu liðin í undanúrslitum og sigurvegarar þar til úrslita. Þessir leikir eru leiknir á tveimur helgarmótum sem KKÍ heldur í lok leiktíðar og er umgjörð og stemming þessara móta jafnan stórglæsileg.
Hér að neðanverðu er hlaupið yfir árangur karlaflokkanna það sem af er vetri. Kvennaflokkunum verður gerð skil í öðrum pistli.
Minnibolti 10 ára
Hófu leik í A-riðli og höfnuðu í þriðja sæti. Í seinna mótinu höfnuðu drengirnir aftur í þriðja sæti og halda sér því áfram í A-riðli.
Minnibolti 11 ára
Hófu leik í A-riðli og höfnuðu í þriðja sæti. Í seinna mótinu höfnuðu drengirnir aftur í þriðja sæti og halda sér því áfram í A-riðli.
7. flokkur karla
Hófu leik í B-riðli og höfnuðu í fimmta og neðsta sæti, töpuðu öllum leikjunum frekar naumt, og féllu niður í C-riðil. Í seinna mótinu voru strákarnir hársbreidd frá því að vinna sig aftur upp í B-riðil, urðu í öðru sæti og hefja því leik sem C-lið þegar þriðja mót vetrarins fer fram.
8. flokkur karla
Hófu leik í B-riðli og höfnuðu í fyrsta sæti ásamt Hetti en töpuðu í innbyrðis viðureign og sátu eftir í riðlinum. Í seinna mótinu urðu strákarnir í öðru sæti og vantar bara herslumunin á að vinna sig upp í A-riðil.
9. flokkur karla
Hófu leik í C-riðli og höfnuðu í öðru sæti. Í seinna mótinu urðu strákarnir í þriðja sæti og leika því áfram sem í C-lið.
10. flokkur karla
Hófu leik í A-riðli og höfnuðu í öðru sæti. Í seinna mótinu urðu strákarnir í fjórða sæti og náðu með naumindum að halda sér áfram í A-riðli. Þessir strákar eru núv. bikarmeistarar í sínum flokki og töpuðu naumlega úrslitaleik síðasta Íslandsmóts.
11. flokkur karla
Hófu leik í B-riðli og höfnuðu í öðru sæti. Í seinna mótinu unnu strákarnir riðilinn og leika því í A-riðili í þriðja móti vetrarins.
Drengjaflokkur
Keflavík keppir í A-riðli en keppt er í tveimur riðlum. Þeir hafa leikið sjö leiki, unnið fimm og tapað tveimur og sitja í 2-4. sæti með 10 stig ásamt Tindastól og Skallagrím. Fjölnir er á toppi riðilsins með 14 stig.
Unglingaflokkur
Þarna teflir Keflavík fram gríðarsterku liði enda margir lykilleikmenn í meistaraflokknum ennþá gjaldgengir í unglingaflokki. Ekki liggur fyrir hver staða liða nákvæmlega er þar sem töluvert af leikjum hefur verið frestað og liðin því leikið mismarga leiki. Keppt er í einni deild og hafa Keflvíkingar tapað einum leik til þessa sem var úti gegn FSU en í þeim leik mun hafa vantað talsvert af lykilmönnum í lið Keflavíkur. Aðra leiki hafa þeir unnið stórt og ætla sér örugglega ekkert annað en titil í þessum flokki.
Bikarkeppni KKÍ
Keppt er í bikarkeppni frá 9. flokki og uppúr. Þar eru allir flokkar fallnir úr leik nema drengja- og unglingaflokkur. Unglingaflokkur á eftir að spila margfrestaðan leik við Hött heima og fara í 8 liða úrslit á móti KR á útivelli vinni þeir þann leik. Drengjaflokkur er kominn í 8 liða úrslit og mætir KR á heimavelli.
f.h. unglingaráðs
Jón Ben