Fyrsta tap Keflavíkurstúlkna staðreynd - stutt viðtal við Bryndísi
Keflavíkurstúlur töpuðu sínum fyrsta leik í Domino´s deild kvenna í gær þegar þær biðu lægri hlut gegn Haukum á útivelli 92-61. Keflavík leiddi eftir fyrsta leikhluta en í öðrum leikhluta skildu leiðir og héldu Haukar öruggri forystu út leikinn eftir það. Þrátt fyrir stórt tap eru Keflavíkurstúlkur enn á toppi deildarinnar með 14 stig að loknum átta umferðum.
Bryndís Guðmundsdóttir var stigahæst í liði Keflavíkur með 19 stig en hún tók að auki 9 fráköst. Þá voru Porsche Landry og Sara Rún Hinkriksdóttir með sín 16 stigin hvor. Bryndís var að vonum ósátt við fyrsta tap liðsins í vetur en var að vonum ósátt við tapið; "Já, þetta var frekar stórt tap en svona fer þetta stundum og er þá ekki betra að tapa bara með 30 stigum heldur en einu stigi?"
Hver var munurinn á leik liðsins í gær og í fyrstu sjö leikjunum?
Við spiluðum kannski saman fyrstu 10 mínúturnar en svo var bara eins og allir hættu að gera þetta saman sem lið og þegar við gerum þetta ekki saman þá vinnum við ekki leikina.
En er liðið nokkuð að fara að dvelja við þennan leik?
Nei, það gerum við ekki. Auðvitað mætum við bara tilbúnar í næsta leik og ætlum okkur að vinna þann leik!