Fréttir

Karfa: Hitt og Þetta | 17. febrúar 2011

Glæsilegt Þorrablót yfirstaðið

Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hélt Þorrablót sitt síðastliðna helgi. Allir voru sammála um það að allt hefði verið mjög vel heppnað og stemmningin í hópnum var mjög góð. Jón Ben stýrði veislunni af mikilli færni og byrjaði á þeim forna sið að helga blótið. Það var gert með þeim hætti að framkvæmdastjóri þorrablótsnefndarinnar, Sævar Sævarsson, var fenginn til að hlaupa hring í kringum bílastæðið, berfættur með aðra buxnaskálmina lausa.

Glæsilegur þorramatur frá Axel Jónssyni var á boðstólnum fyrir gestina. Það var einkar skemmtilegt að fylgjast með erlendu leikmönnum Keflavíkurliðsins þegar þeir gengu á hlaðborðið. Diskarnir voru frekar fátæklegir þegar þeir höfðu gengið út línuna, en þeir treystu sér svo sannarlega ekki í ferskan sviðakjamma!

Jón Björn Ólafsson frá Karfan.is mætti á svæðið sem ræðumaður kvöldsins í stað Róberts Marshalls, en sá síðarnefndi afboðaði því miður komu sína daginn áður þar sem hann sat flugtepptur erlendis. Jón Björn hafði það á orði að þessi aðstoð frá honum með skömmum fyrirvara yrði héðan í frá kölluð "Marshall aðstoðin". Síðan reytti hann af sér brandarana hvern á fætur öðrum og fékk mikið af hlátrasköllum úr salnum fyrir vikið.

Því næst steig Einar Mikael töframaður á svið og var með uppistand. Hann sagði m.a. sögur af upplifun sinni á Bandaríkjunum og skemmtilegum frávikum í menningu Keflvíkinga. Stuttu seinna sýndi hann töfrabrögð á heimsmælikvarða, en þau voru þess eðlis að allur salurinn gapti af undrun hvað eftir annað. Hann fékk hverja fegurðardísina á fætur annarri upp til sín og hrekkti þær allar snilldarlega. Fljúgandi borð leit dagsins ljós og ekki má gleyma eldfylltum pott sem var lokað, en upp úr pottinum kom síðan þessi myndarlega dúfa. Salurinn klappaði ákaft þegar Einar þakkaði fyrir sig að lokum.

Eitt heitasta band landsins í dag, Valdimar frá Keflavík, steig að lokum á stokk og spilaði órafmagnað fyrir mannskapinn. Þarna eru strákar á ferð sem eiga framtíðina fyrir sér í tónlistargeiranum á Íslandi og vert er að fylgjast með á næstunni.

Körfuknattleiksdeild Keflavíkur þakkar öllum þeim sem lögðu leið sína á þorrablótið í ár og er þetta klárlega eitthvað sem verður endurtekið að ári.

Takk fyrir stuðninginn.

Áfram Keflavík.

Jón Björn var ræðumaður kvöldsins


Einar Mikael töframaður fór á kostum og lét m.a.borð svífa um salinn með ótrúlegum hætti


Hljómsveitin Valdimar frá Keflavík spilaði órafmagnað og heillaði nærstadda.