Fréttir

Karfa: Yngri flokkar | 1. nóvember 2010

Góðir kaflar hjá 7. flokki þrátt fyrir þrjá tapleiki

Strákarnir í 7. flokki mættu til leiks í Ljónagryfjuna á sunnudagsmorgun. Fyrsti leikur var gegn KR sem er án efa sterkasta liðið í riðlinum en sæti þeirra í A-riðli var aldrei í hættu um helgina því lið Reykdæla hafði dregið sig úr keppni. Strákarnir stóðu sig eins og hetjur framan af og leiddu leikinn allt þangað til um 2 mínutur voru eftir, þá fór vörnin aðeins að klikka og KR-ingarnir fóru að setja niður 3ja stiga körfur hægri  vinstri. Samt sem áður spiluðu strákarnir fanta góða vörn og komust mótherjarnir aldrei í takt við leikinn þótt þeir settu háa pressu á okkar menn. Leikurinn endaði með 5 stiga tapi sem voru allt annað en sanngjörn úrslit.

Næsti leikur var á móti erkifjendunum í Njarðvík og byrjaði sá leikur ekki jafn vel og á móti KR. Strákarnir mættu hálfsofandi í fyrsta leikhluta og var varnarleikurinn ekki til staðar. En í öðrum leikhluta mættu ferskir strákar inn á og náðu að klóra í bakkann og hefði það ekki verið fyrir flautukörfu frá miðju hjá Njarðvíkingum hefði leikurinn verið í járnum fyrir 3. leikhluta. Strákarnir náðu þó að jafna leikinn með góðum þrist frá Róberti Smára og komin smá spenna í leikinn en þá ákváðu drengirnir að eyða orku sinni í að væla í dómurunum í staðinn fyrir að spila góða vörn, og þar af leiðandi tapaðist leikurinn með 4. stiga mun.

Næstu mótherjar voru Stjarnan, lið sem við eigum að vinna á hverjum degi en samt mætti Keflavíkurliðið aldrei í þann leik. Slök byrjun og enginn vörn varð til þess að Stjörnumenn tóku forustuna snemma leiks og létu hana aldrei af hendi. Kannski var þreyta að spila inn í eða hausinn ekki alveg í lagi en Stjörnumenn voru betri aðilinn allan leikinn og Keflvíkingar máttu sætta sig við tap eftir slæman leik af þeirra hálfu.

Þrátt fyrir 3 töp á einum og sama deginum er mikil framför hjá liðinu og voru allir þjálfarar á mótinu undrandi á því hversu vel spilandi Keflavíkurliðið var. Fengu strákarnir einróma hrós fyrir fyrstu tvo leikina (að undanskildum nokkrum mínutum í Njarðvíkurleiknum sem fóru í dómaravæl). Það er nóg vinna framundan hjá okkur Gunna Stef. (sem lá í flensu meðan mótið fór fram) en þessir strákar stefna hátt og eina leiðin er upp á við eftir erfiða helgi.

Kær kveðja.

Guðmundur Ingi ( Mummi) "aðstoðar" þjálfari.