Góður sigur í fyrsta leik hjá Keflavíkurstúlkum - Stutt viðtal við Bríet Sif
Keflavíkurstúlkur sigruðu Hauka í gær, 76-74 í æsispennandi leik í Domino´s deild kvenna en leikur fór fram í TM-Höllinni. Stúlkurnar sýndu mikinn karakter eftir að hafa verið undir þegar stutt var til leiksloka. Bríet Sif Hinriksdóttir, tvíburasystir Söru Rún Hinriksdóttur, sem leikið hefur stórt hlutverk í Keflavíkurliðinu sl. tvö tímabil er að koma gríðarlega sterkt til leiks í upphafi móts og átti góða innkomu í leiknum í gær. Hún endaði leikinn með 6 stig af bekknum og er ljóst að hún ætlar að láta til sín taka á komandi tímabili í Domino´s deildinni.
Hvað skóp sigurinn í gær?
Ég myndi segja að það hafi verið viljinn og við fundum vel fyrir stuðningnum í endann á leiknum frá áhorfendum.
Hvað er það sem gerist í fráköstunum en þið töpuðuð þeirri baráttu með um 25 frákastamun?
Veit það ekki nákvæmlega en það er eitthvað sem við þurfum að bæta okkur í.
Hvernig lýst þér á komandi tímabil undir stjórn Andy?
Mér lýst vel á komandi tímabil undir hans stjórn, hann er að koma með mikið af nýjum og flottum hlutum inn í keflvískan körfubolta.
Nú ert þú að fá fleiri tækifæri en á sama tíma í fyrra, mega Keflvíkingar eiga von á þér enn sterkari þegar líður á?
Já, ég ætla að gera mitt besta.
Mynd: Bríet Sif í leik gegn Haukum. Myndin er fengin að láni hjá www.vf.is.