Grátlegt tap gegn Grindavík
Keflvíkingar töpuðu í gegn Grindavík í Toyotahöllinni í dag í 4-liða úrslitum Poweradebikarsins, 83-84. Það verða því aðeins stúlkurnar sem munu halda uppi heiðri Keflavíkur í bikarnum í ár en þær komust áfram í gær eftir nauman sigur gegn Snæfell.
Keflvíkingar voru hálf rænulausir í fyrri hálfleik í dag og má segja að enginn leikmaður liðsins að Billy Baptist undanskildum hafi verið vaknaðir. Gestirnir leiddu með fjórtán stigum í hálfleik. Keflvíkingar komu hins vegar sterkir til leiks í þeim síðari og var leikurinn gríðarlega jafn og spennandi allt til enda. Sterkustu leikmenn Keflavíkur voru sem fyrr þeir Michael Craion, Billy Baptist og Darrel Lewis en sá síðastnefndi fór mikinn í seinni hálfleik og skoraði þá öll stigin sín, að tveimur undanskildum. Án þess að ætla að fara kryfja leikinn til mergjar er ljóst að nokkrir samverkandi þættir skildu liðin að í kvöld. Aðallega var það gríðarlega slök vítanýting undir lokin hjá heimamönnum sem gerði það að verkum að Keflavík tapaði auk þess sem Valur Orri Valsson og Magnús Þór Gunnarsson voru langt frá sínu besta - sem munar um minna - en sá fyrrnefndi gekki ekki heill til skógar í kvöld sökum bakmeiðsla sem hafa hrjáð kappann síðustu daga. Keflvíkingar úr leik og verja því ekki bikarmeistaratitilinn.