Grindvíkingar flengdir - ÍR í 8-liða úrslitum
Keflvíkingar áttu ekki í miklum vandræðum með Grindvíkinga í kvöld, en þeir síðarnefndu voru mættir í Toyota Höllina í kvöld
til þess að spila lokaleikinn í deildarkeppni Iceland Express. Keflvíkingar voru sjóðheitir allan leikinn og lokatölur 86-71.
Keflvíkingar réðu ferðinni allan leikinn og hleyptu Grindvíkingum aldrei almennilega inn í leikinn. Þétt vörn og grimmar sóknir
stuðluðu að góðum sigri í kvöld. Staðan í hálfleik var 50-30 Keflavík í vil.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson var öflugur í Keflavíkurliðinu í kvöld, en kappinn skoraði 25 stig og hirti 8 fráköst. Maggi Gun
var með 17 stig, Halldór Halldórsson 13 stig og Hörður Axel 12 stig.
Thomas Sanders lék ekki með Keflvíkingum, en hann er að glíma við eymsli í baki eftir mikla byltu í leiknum gegn Tindastól.
Þá á Jón Norðdal Hafsteinsson einnig við smávægileg meiðsli að stríða. Stefna þeir á fyrsta leik í 8-liða úrslitum.
Þá er uppröðun ljós fyrir 8-liða úrslit Iceland Express deildarinnar. Keflvíkingar fá ÍR-inga í fyrstu umferð, en þeir síðarnefndu
hafa verið á mikilli siglingu að undanförnu og flengdu m.a. KR-inga á dögunum. Það verður fróðlegt að sjá hvernig rimman
mun þróast, en bæði lið eru þekkt fyrir mikla baráttu þegar kemur að örlagastundu. Úrslitakeppnin hefst á fimmtudaginn í næstu
viku (17. mars), en fyrsta umferð verður spiluð á fimmtudag og föstudag.
Leikdagar í 8-liða úrslitum verða sem hér segir:
Leikur 1 - Fimmtudagur 17. mars
Leikur 1 - Föstudagur 18. mars
Leikur 2 - Sunnudagur 20. mars
Leikur 2 - Mánudagur 21. mars
Leikur 3 - Miðvikudagur 23. mars
Nú viljum við að stuðningsmenn séu duglegir við að láta sjá sig í næstu leikjum og hvetja alla nærstadda til þess að koma
og styðja við bakið á strákunum. Við ætlum okkur alla leið í vetur og getum það ekki án stuðnings áhorfenda!
Áfram Keflavík!
Maggi Gun átti nokkra baneitraða þrista í leiknum í kvöld (mynd: vf.is)