Guðmundur Jónsson framlengir til tveggja ára
Bakvörðurinn Guðmundur Jónsson framlengdi í dag samning sinn við Keflavík og mun hann leika með liðinu út þetta tímabil og næstu tvö tímabil eftir það. Guðmundur hefur verið gríðarlega öflugur í liði Keflavíkur það sem af er vetri en liðið situr á toppi deildarinnar ásamt KR þegar 16 leikjum er lokið.
Það þarf vart að fjölyrða um hversu gríðarlega ánægðir Keflvíkingar eru með að tryggja sér veru Guðmundar fram að árinu 2016. Drengurinn er án efa besti varnarbakvörður deildarinnar auk þess að vera ein besta þriggjastigaskytta landsins en í þessum skrifuðu orðum er Guðmundur með hæstu þriggjastiganýtingu allra í Domino´s deildinni - eða 48%. Það sem af er vetri hefur Guðmunur skilað rúmum 14 stigum að meðaltali í leik og 4,5 fráköstum.
Keflvíkingar vonast til að geta framlengt við fleiri leikmenn karla- og kvennaliðsins á næstu vikum en ætlunin er að gefa ekkert eftir í baráttunni á toppnum næstu árin!
Mynd: Sævar Sævarsson, varaformaður KKDK, og Guðmundur Jónsson handsöluðu samninginn í dag fyrir framan bikaraskápinn í TM-Höllinni en það er von forráðamanna KKDK að Guðmundur muni eiga þátt í að koma fleiri titlum í skápinn á næstu árum.