Gunnar Einarsson reimar á sig skóna á ný og spilar með Keflavík
Keflavík hefur samið við bakvörðinn Gunnar Einarsson um að hann leiki með liðinu í Domino´s deild karla í vetur. Gunnar lék síðast með Keflavík tímabilið 2010-2011 og skoraði þá 10 stig að meðaltali í leik. Síðan hann hóf að geyma körfuboltaskóna á hillunni hefur hann einbeitt sér að líkamsrækt og einkaþjálfun ásamt því að spila með hinum margrómaða B-liði Keflavíkur í bikarkeppninni.
Stjórn Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur hefur sl. þrjú ár reynt að fá Gunnar til draga fram körfuboltaskóna og því ljóst að mikil ánægja ríkir með að hann hafi ákveðið að taka slaginn með liðinu í vetur. Eitt er víst að kappinn er eflaust í betra líkamlegu formi en nokkru sinni og mun hann því ekki gefa tommu eftir á vellinum frekar en áður.