Gunnar tryggði Keflavík sigur gegn Njarðvík á vítalínunni
Gunnar Einarsson átti undarlegan leik í kvöld, ef svo má segja. Lengst af var hann óákveðinn og hikandi, ólíkur sjálfum sér, en í lokafjórðungnum sýndi hann mátt sinn og megin, gerði öll sín sjö stig á stuttum kafla í lokin og tryggði Keflavík sigur með tveimur pressuvítum þegar örfáar sekúndur lifðu leiks.
Annars var leikurinn í kvöld skemmtilegur og spennandi, þótt eflaust megi segja að bæði félög hafi oft leikið betur. Keflavík byrjaði með látum og komst í 11-0, ekki síst vegna stórleiks frá Jonna. Þegar sex mínútur voru liðnar skoraði Njarðvík sína fyrstu körfu og eftir það fór leikurinn að jafnast. Í hálfleik var munurinn sjö stig, 40-33. Keflvíkingar virkuðu betri og það var einkum Anthony Lackey sem hélt Njarðvík inní leiknum með góðri hittni sinni. Elentínus kom inn með mikinn kraft og var einn besti maður liðsins, hefur vaxið mjög á stuttum tíma. Hann gerði alls 13 stig í leiknum og hitti úr öllum sínum þremur þriggja stiga skotum.
Í seinni hálfleik hófust síðan kaflaskipti, eins og við þekkjum vel úr viðureignum þessara félaga. Njarðvík komst yfir 52-49, en Keflavík náði góðum spretti og tók leikinn aftur í sínar hendur, náði 10 stiga forskoti 65-55, ekki síst eftir góðan varnarleik hjá Nick Bradford. Hann gerði sér lítið fyrir og varði m.a. tvívegis skot i hraðupphlaupi með stuttum fyrirvara, sérlega glæsileg tilþrif.
En Njarðvík gafst ekki upp og jafnaði leikinn að nýju með þristi frá Guðmundi Jónssyni sem var á skotskónum eins og svo oft á móti Keflavík. Lokamínúturnar voru síðan æsispennandi. Hraðinn var ekki mikill og reyndu Keflvíkingar í rólegheitum að finna glufur á svæðisvörn heimamanna. Það tókst nokkrum sinnum og Keflavík seig framúr að nýju. Vörnin var síðan gríðarsterk í lokin og fundu Njarðvíkingar engar glufur til að jafna leikinn. Þegar um 15 sekúndur voru eftir hafði Keflavík tveggja stiga forskot og þá var brotið á Gunna og hann setti bæði niður, eins og áður var lýst. Í lokin skildu fimm stig liðin, 78-73, og miklum baráttuleik lauk með afar mikilvægum útisigri Keflavíkur. Með þessum sigri höldum við nálægð við toppinn í deildinni.
Sóknarleikurinn var mun hægari en oft áður hjá Kef og stundum var hann ómarkviss. Enda var skorið lágt. Nick var öflugur (17 stig, 9 frák, 5 stoðs), ekki síst í vörninni og hélt baráttunni gangandi. Jonni (10 stig) var öflugur í byrjun en dalaði eftir því sem á leikinn leið, en því var öfugt farið með Gunna. Magnús skoraði 10 stig og stjórnaði leiknum vel, þó oft hafi hann reynt meira upp á eigin spýtur. Hann átti þó tvo þrista "from downtown". Glover átti spretti og var afar öruggur á vítalínunni, setti öll sjö vítin niður. Hefði þó að ósekju mátt falast meira eftir boltanum, því hann var illviðráðanlegur þegar hann fór undir körfuna. Hann var stigahæstur með 21 stig. Elentínus var góður.
Hjá Njarðvík var Lackey bestur í fyrri hálfleik, en í þeim seinni var liðið jafnara. Guðmundur hitti vel og Friðrik var sterkur í fráköstunum. Brenton og Palli áttu ágæta spretti, en Palli virtist stundum ráðvilltur. Matt Sayman er góður en var í strangri gæslu allan tímann.
Áhorfendur voru vel með á nótunum og góð stemmning var í Ljónagryfjunni. Trommararnir okkar standa fyrir sínu og skemmtileg barátta var milli stuðningsmanna liðanna.
Nú er aðeins einn leikur eftir fyrir jól, gegn nýliðum Fjölnis á fimmtudaginn. Sigur í þeim leik myndi koma okkur í þægilega stöðu yfir hátíðarnar.