Hamarsmenn tæklaðir í Toyota Höllinni
Keflvíkingar unnu góðan sigur á Hamarsmönnum í kvöld, en leikið var í Toyota Höllinni. Lokatölur leiksins voru 94-77 og var þetta 4. deildarsigur Keflvíkinga í röð.
Keflvíkingar sigldu kröftuglega fram úr Hamarsmönnum þegar nokkrar mínútur voru búnar af leiknum, en eftir það átti Hamar aldrei möguleika á að ná Keflavík að mati eins stuðningsmanns í stúkunni. Það var í öðrum leikhluta þar sem Keflvíkingar fóru á kostum, en þeir nýttu pressuvörn sína vel ásamt því að sýna mikið öryggi í sóknarleik sínum. Hálfleikstölur voru 52-27 og flestir sáu í hvað stefndi. 3. leikhluti var með svipuðu sniði og náðu Keflvíkingar mest 36 stiga forskoti. Hamarsmenn sýndu þó ótrúlega seiglu þegar þeim tókst að skora 4 þriggja stiga körfur á einni og hálfri mínútu undir lok fjórðungsins. Þeir héldu smám saman áfram að saxa á forskotið og leist fáum á blikuna þegar þeir voru búnir að kroppa muninn niður í 13 stig. Lengra komust þeir þó ekki og Keflvíkingar lönduðu sigri.
4. sigur Keflvíkinga í röð í deildinni og er liðið taplaust með Thomas Sanders innanborðs. Sanders skoraði 29 stig, hirti 14 fráköst og átti skuggalega troðslu í seinni hálfleik ásamt því að fá villu, sem ærði alla stúkuna! Hörður Axel átti líka flottan leik og skoraði 22 stig. Siggi Þorsteins skoraði 15.
Nýi útlendingurinn hjá Hamar var atkvæðamestur gestanna, en hann skoraði 24 stig. Ragnar Á. var erfiður viðureignar undir körfunni, enda slagar kappinn hátt í 6 metra. Hann hirti 18 fráköst og skoraði 13 stig.
Keflvíkingar deila því 3ja sæti deildarinnar með KR, en næsti leikur er einmitt á útivelli gegn KR þann 3. febrúar næstkomandi og má búast við svaðalegum leik þar. Allir að mæta og styðja strákana okkar.
Áfram Keflavík!
Staðan í deildinni: