Fréttir

Karfa: Konur | 12. janúar 2012

Hamarsstúlkur kláraðar í 4. leikhluta

Keflavíkurstúlkur skelltu sér í gærkvöldi í Hveragerði, eftir afleitt veður undanfarna daga var loks hægt að komast á áfangastað. Svo fór að Keflavíkurstúlkur lönduðu góðum sigri 61-79. Fréttaritari Keflavíkur var fjarri góðu gamni í gærkvöldi og nýtir þar af leiðandi góða umfjöllun karfan.is af leiknum:

Hamar tók á móti efsta liðinu, Keflavík, í Iceland Expreess deild kvenna í kvöld þar sem heimakonur voru lengi í gang. Keflavík komst í 4-16 en eitthvað lagaðist leikur Hamars sem var búinn að jafna stöðuna rétt fyrir hálfleik 30-30 og ekki mikið skorað.
Samantha Myrphy var ekki að setja neitt af 3ja stiga skotum sínum fyrir Hamar og Keflvíkingum var nánast fyrirmunað að skora á vítalínunni þar sem ein 7 víti fóru forgörðum, þar af 6 víti í röð. Mikið munaði um að Butler var komin með 3 villur fljótlega í 2.leikhluta og sett á bekkinn en öðrum Keflavíkurstelpum gékk erfiðlega að skora!
 
Eftir hlé var allt í járnum og Hamar yfirleitt fyrri til að skora. Bitleysi var í sókn Keflavíkur og Hamar náði nokkrum skyndisóknum sem skilaði fjögurra stiga forystu Hamars þegar vendipunktur kvöldsins reið yfir. Samantha Murphy var borin af velli með slæm öklameisðli og mikið áfall fyrir heimaliðið. Rétt áður hafði Butler komið inn á aftur hjá Keflavík og sú átti eftir að spila eins og engill!
 
Hamarstelpur juku þó forskotið í 51-42 og héldu forystu eftir 3. leikhluta 51-48. Suðurnesjadraugurinn var vakinn, Keflavík skellti á pressuvörn sem gaf vel og heismstúlkur fengu ekki boltann til að vilja ofan í körfuna. Staðan breyttist á stuttum kafla í 10 stiga forystu Keflavíkur og ekki var aftur snúið, gestirnir unnu síðasta leikhlutann 10-31! Butler var allt í öllu og skoraði af list, stal boltum og tók fráköst til jafns við allt Hamarsliðið. Mestu munaði að hún hélt sér í þremur villum allan seinni hálfleikinn og Murphy var úr leik hjá Hamri. Leikurinn endaði 61-79 og Keflavík heldur toppsætinu en Hamarskonur sýndu flott tilþrif fyrstu þrjá leikhlutana í kvöld. Jákvæð merki á þeirra leik en vonandi að Samantha Murphy sé ekki alvarlega meidd.
 
Fyrir leikinn í kvöld fékk Fanney Guðmundsdóttir leikheimild með Hamri eftir að hún skipti úr frönsku 2.deildinni þar sem hún lék fyrir áramót. Þar sem leikurinn við Keflavík var upphaflega á dagskrá í gær (þriðjudag) var hún ekki lögleg í kvöld en verður með í næsta leik á móti Njarðvík!
 
Því miður liggur stigaskor á kkí heimasíðunni ekki fyrir.