Fréttir

Karfa: Konur | 2. mars 2010

Hamarsstúlkur rúlluðu yfir Keflavíkurstúlkur

Keflavíkurstúlkur riðu ekki feitum hesti þegar þær mættu Hamarsstúlkum í kvöld, en lokatölur leiksins voru 85-101 fyrir Hamar. Hamarsstúlkur voru yfir nær allan leikinn, en þó komu kaflar þar sem að Keflavíkurstúlkur náðu í skottið á þeim, en náðu því miður aldrei að halda þeirri rispu áfram. Staðan í hálfleik var 42-49 fyrir Hamar. Það sem marði þennan sigur hjá Hamarsstúlkum var sterk vörn, ásamt einföldum leikfléttum sem að Keflavíkurstúlkur féllu alltaf fyrir. Fráköstin voru enn og aftur til vandræða hjá Keflavík, en Hamarsstúlkur tóku 46 fráköst á móti 37 hjá Keflavík.

Hjá Keflavík var Kristi Smith með góðan leik, en hún skoraði 27 stig. Birna Valgarðsdóttir kom á eftir henni með 15 stig. Hjá Hamar var Julia Demirer með 22 stig og 16 fráköst. Sigrún Ámundadóttir skoraði 20 stig.

Þessi úrslit þýða það að Keflavíkurstúlkur enda í 3. sæti deildarinnar, með jafnmörg stig og Hamar en slakara stigaskor. Þær mæta því Snæfell í 8-liða úrslitum og fer fyrsti leikurinn að öllum líkindum fram á sunnudaginn næstkomandi í Keflavík.