Hamarsstúlkur unnu toppslaginn í æsispennandi leik
Keflavíkurstúlkur þurftu að lúta í lægra haldi fyrir Hamarsstúlkum í kvöld, en leikurinn var gríðarlega spennandi og réðust úrslit leiksins ekki fyrr en á lokasekúndum leiksins. Lokatölur leiksins voru 69-72, Hamarsstúlkum í vil.
Keflavík byrjaði undir í leiknum en náði forystu þegar um 5 mínútur voru liðnar af leiknum. Stelpurnar voru að spila grimma vörn og beittar á köflum í sókninni. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 23-19. Keflavík hélt uppteknum hætti í öðrum leikhluta, en tapaðir boltar voru of tíðir ásamt klúður á auðveldum 2ja stiga stökkskotum, þar á meðal allnokkur lay-up. Keflavíkurstúlkur héldu þó forystunni og leiddu hálfleik nokkuð örugglega 42-32. 3. leikhluti var nokkuð fyrirséður miðað við stöðu mála í fyrri hálfleik og var leikurinn nokkuð þokukenndur hjá báðum liðum í þeim leikhluta. Hamarsstúlkur voru ekki á því að gefast upp þegar 4. leikhluti hófst og var baráttan mikil. Þær náðu að saxa á forskotið og loks jafna þegar rúmlega 5 mínútur voru eftir af leiknum. Við tók æsispennandi lokakafli. Jacquline Adamshick fékk 2 vítaskot þegar um 7 sekúndur voru eftir af leiknum og staðan 69-70. Hún klikkaði úr báðum vítaskotunum og Hamarsstúlkur tóku frákast. Brotið var á Jaleesu Butler og skoraði hún úr báðum skotum sínum. Pálína Gunnlaugsdóttir reyndi svo mjög erfitt 3ja stiga skot með mann í sér á lokasekúndu leiksins, en skotið dreif ekki á hringinn og Hamarsstúlkur fögnuðu sigri.
Fyrsta tap kvennaliðs Keflavíkur staðreynd í æsispennandi leik. Eins og staðan er í dag sitja Hamarsstúlkur einar á toppnum með 14 stig og Keflavík með 12 eftir jafnmarga leiki.
Hjá Keflavík var Jacquline Adamshick atkvæðamest með 28 stig og 23 fráköst. Bryndís Guðmundsdóttir skoraði 17 stig og hirti 7 fráköst. Birna Valgarðsdóttir var með 10 stig og 10 fráköst.
Hjá Hamar var Jaleesa Butler með 29 stig og 10 fráköst. Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 17 stig.