Háspenna lífshætta gegn Snæfell
Það var rafmagnað andrúmsloftið í Toyota Höllinni í gærkvöldi þegar Keflavík og Snæfell áttust við í Iceland Express deild karla. Keflvíkingar berjast hart í baráttunni um annað sæti deildarinnar og Snæfellingar reyna að kroppa sig upp stigatöfluna í miðri deild. Svo fór að Keflavík halaði inn mikilvægum stigum í framlengdum leik, en lokatölur leiksins voru 101-100.
Snæfellingar byrjuðu leikinn betur í gær og náðu að komast í 0-6 forystu. Þá mættu Keflvíkingar til leiks og skoruðu sín fyrstu stig eftir rúmlega 2 mínútur. Keflvík var sífellt nartandi í hælana á Snæfell í fyrri hálfleik, en Snæfell var með forystu þegar flautað var til hálfleiks; 38-42.
Seinni hálfleikur hófst með látum hjá Keflavík og Magnús Þór Gunnarsson með tvo þrista að hætti hússins þegar 2 mínútur höfðu rúllað. Hann bætti svo við tveimur í viðbót á næstu þremur mínútum og skyndilega voru Keflvíkingar komnir með 11 stiga forystu í leiknum. Snæfell átti svo gott 0:10 áhlaup og minnkuðu muninn í 1 stig. Í 4. leikhluta voru Keflvíkingar skrefi framar, en undir lokin náðu Snæfellingar að koma sterkir til baka og minnka muninn. Ólafur Torfason fékk tvo vítaskot og jafnaði leikinn þegar tæp sekúnda var til loka leiks. Keflvíkingar reyndu misheppnað innkast undir lokin sem gekk ekki og leikurinn því í framlengingu. Almar Guðbrandsson lenti í baráttu undir körfunni hjá Snæfellingum þegar um 2 sekúndur voru eftir af leiknum og brotið var á honum. Hann steig á línuna og setti fyrra niður. Seinna geigaði og Snæfellingar reyndu erfitt langskot sem var langt frá körfunni. Lokatölur því 101-100 eins og fyrr segir.
Mikilvæg stig í hús og þessa stundina verma Keflvíkingar annað sæti deildarinnar ásamt Stjörnunni og Þór Þorlákshöfn.
Arnar Freyr Jónsson lék með í kvöld og skilaði sínu hlutverki vel. Hann er allur að koma til og verður vonandi orðinn fullfrískur í úrslitakeppninni.
Magnús Þór Gunnarsson var baneitraður í kvöld með 35 stig og hvorki meira né minna en 8 þrista. Charles Parker setti 25 stig og hirti 10 fráköst, Jarryd Cole 11 stig og 13 fráköst.
Maggi var óhræddur við að munda byssuna í gær! (mynd: karfan.is)
Staðan í deildinni kvöldið 2. mars 2012