Haukastúlkur bikarmeistarar
Haukastúlkur lögðu Keflavíkurstúlkur fyrr í dag í úrslitaleik Subway-bikarsins, en lokatölur voru 83-77. Leikurinn var jafn og spennandi fram af, en það var ekki fyrr en í 4. leikhluta að Haukastúlkur náðu sterku taki á Keflavíkurstúlkum og héldu forystu til leiksloka. Í hnotskurn má segja að Keflavíkurstúlkur hafi tapað þessum leik því þær náðu varla frákasti undir eigin körfu í öllum leiknum, en Haukastúlkur tóku 27 sóknarfráköst í leiknum gegn 4 sóknarfráköstum hjá Keflavík, alveg ótrúlegar tölur. Það sýndi sig líka í heildarskotum liðanna, en Haukastúlkur náðu 90 skotum í 2ja og 3ja á móti 52 skotum hjá Keflavík. Það var sama hversu oft Jonni tók leikhlé til að öskra á stelpurnar að stíga út, Haukastúlkur áttu hreinlega svæðið undir körfunni á báðum endum og á tímabili löbbuðu þær hreinlega í gegn til að taka auðvelt lay-up. Virkilega erfitt að horfa upp á þetta en það verður bara að segjast eins og er; betra liðið í þessum leik vann bikarinn. Keflavíkurstúlkur voru þó með góða nýtingu í 2ja (50%, 17/34) og 3ja (39%, 7/18), sem gerði það að verkum að þær voru vel inni í leiknum þangað til undir lokin.
Hjá Keflavík var Birna Valgarðsdóttir stigahæst með 22 stig, Kristi Smith með 20 og Bryndís Guðmundsdóttir með 19. Hjá Haukum var Heather Ezell með 25 stig og 15 fráköst, en María Lind Sigurðardóttir var með 20 stig og 9 fráköst.