Heimaleikir hjá stelpunum og strákunum
Heimaleikir munu einkenna þessa vikuna hjá Keflavík í Dominosdeildum karla og kvenna. Stelpurnar ríða á vaðið þegar þær fá Stjörnuna í heimsókn á miðvikudaginn. Síðasti leikur þeirra í deildinni var gegn Hamarstúlkum í Hveragerði, en þar skiluðu stelpurnar flottum sigri. Það er mikil spenna í kvennadeildinni þar sem baráttan um sæti í úrslitakeppninni er hörð. Stelpurnar sitja eins og stendur í 4. sæti með 14 stig, líkt og Valur sem situr í því þriðja. Stjarnan situr í 6. sæti með 6 stig, en eins og sést hefur í vetur getur allt gerst í boltanum.
Strákarnir eiga svo stórleik vikunnar og jafnvel stærsta leik vetrarins, sjálfur El-classico. Njarðvík mun mæta í TM höllina á föstudagskvöldið kl 19:15. Það má reikna með fullu húsi og rafmagnaðari stemningu en Dominos körfuboltakvöld verða á staðnum til að fanga stemninguna. Keflvíkingar sitja sem fyrr á toppi deildarinnar með 22 stig. Það fer eflaust illa í nágrannana sem sitja í 4. sæti með 16 stig og ætla þeir án efa að láta mikið til sín taka. Þeir hafa verið á mikilli siglingu nýverið en eftir miklar breytingar virðist liðið vera að koma heim og saman.
Fyrir þá sem vilja fylgjast betur með körfunni í Keflavík er hægt að fylgjast með á Snapchat: kefkarfa, Twitter: @keflavikKarfa og á facebook.com/keflavikkarfa
Líkt og venjan er verða grillaðir burgerar fyrir bæði kvenna og karlaleikinn svo því er um að gera að mæta fyrr og fá sér eðal kvöldmat ala Keflavík.