Heimsklassa vítanýting í sætum sigri á UMFN
Það var hörkuleikur og mikil skemmtun sem fór fram s.l. föstudagskvöld þegar Keflavík b sótti UMFN heim í 1. deild kvenna. Eftir mikil átök náðu Keflavíkurstelpur að knýja fram sætan sigur þrátt fyrir að vera 16 stigum undir þegar innan við fimm mínútur voru eftir. Vítanýting Keflavíkurliðsins var ótrúleg í þessum leik og hlýtur að rata í sögubækurnar. Alls tóku þær 39 víti í leiknum og settu 33 niður sem gerir 84,6 % nýtingu, tölur sem menn sjá ekki á hverjum degi.
Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks en Keflavík náði þó góðri rispu í lok fyrsta leikhluta og upphafi þess næsta og náðu níu stiga forystu þegar best lét. Njarðvíkingar tóku leikhlé og komu aftur til baka með mikilli baráttu og lauk bráðskemmtilegum fyrri hálfleik með jafntefli, 40-40. Áfram var jafnt á flestum tölum í þriðja leikhluta þar til í lok hans. Þá brast á mikil skorstífla hjá okkar stelpum á meðan þær grænu sölluðu niður hverri körfunni á fætur annarri. Í fjórða leikhluta hélt Njarðvík áfram uppteknum hætti og þegar leikhlutinn var rúmlega hálfnaður höfðu þær náð 16 stiga forskoti sem áður segir, 78-62. Héldu nú flestir stuðningsmenn Keflavíkur að leikurinn væri að fjara út hjá okkar stelpum en það reyndist þó öðru nær. Árnína svaraði með stórum þristi og stelpurnar lögðu allt sem þær áttu í varnarleikinn sem dugði til þess að sóknarleikur Njarðvíkinga tók að hiksta. Ástrós setti niður víti og síðan Eva Rós fjögur í röð. Þegar rúm tvær og hálf mínúta var eftir var dæmd villa á Njarðvík og strax í kjölfarið óíþróttamannsleg villa. Keflavík fékk við það fjögur víti og innkast að auki. Telma setti öll vítin niður og Árný skoraði í sókninni sem kom í kjölfarið. Sex stiga sókn á sextán sekúndum og munurinn skyndilega orðinn aðeins tvö stig. Gríðarleg barátta fór nú í hönd þar sem okkar stelpur kláruðu leikinn á vítalínunni án þess að klikka, fyrst Eva með fjögur í röð, síðan Árný með tvö og loks Eva aftur með síðustu tvö víti leiksins en hún tók alls 14 víti í leiknum og skoraði úr þeim öllum. Stelpurnar fögnuðu gríðarlega í leikslok, enda magnaður lokasprettur að baki, þar sem öflug liðsheild sneri saman bökum á ögurstundu og landaði sætum sigri í toppslag deildarinnar.
UMFN - Keflavík b
81 - 84 (19-24, 40-40, 62-56)
Stigaskor Keflavíkur:
María Ben 15 (2/2, 11 frák.), Eva Rós Guðmunds 14 (14/14), Árný 13 (3/3), Telma Lind 13 (7/8), Lóa Dís 11 (3/3, 7 frák.), Árnína 10 (2/3), Ástrós 8 (2/6). Sigrún, Emelía, Soffía Rún og Lovísa léku einnig en náðu ekki að skora. Anita Viðars lék ekki.
Vítanýting 33/39 eða 84,6%, fráköst 37 og villur 23
Vítanýting UMFN var 20/28 eða 71,4%, fráköst 26 og villur 28. Stigahæstar voru Ína María 17, Heiða 15, Sigurlaug 15, Dagmar 12 og Anna María 10.
Njarðvíkingar eiga hrós skilið fyrir glæsilega umgjörð leiksins. Þessi lið eiga eftir að mætast einu sinni til viðbótar í vetur og mun sá leikur fara fram í Keflavík.
Næsti leikur Keflavíkur í deildinni er útileikur við Skallagrím laugardaginn, 21. febrúar kl.15