Hin fjögur fræknu: Vörnin skóp öruggan sigur gegn KR
Keflvíkingar og KR-ingar buðu áhorfendum upp á frábæra skemmtun í gærkvöldi eftir frekar daufan leik Grindavíkur og Hauka. Ljóst var frá byrjun að leikmenn ætluðu að leggja sig fram og að ekkert fengist ókeypis.
En þótt bæði lið legðu sig fram virkuðu Keflvíkingar mun grimmari alveg frá fyrsta dómarakastinu. Vörnin var þétt með Jón Nordal Hafsteinsson í fararbroddi og KR-ingar virkuðu hálf taugaveiklaðir og misstu boltann í gríð og erg í hendur heimamanna. Um miðjan 2. leikhluta höfðu KR-ingar tapað 16 boltum og alls urðu þeir 31 í leiknum.
Staðan eftir 1. leikhluta var 27-20 og í hálfleik var hún 43-40. Þrátt fyrir grimma vörn náðu Keflvíkingar ekki að stinga af og ástæðurnar fyrir því voru tvær. Sú fyrri var Darryl Flake sem er gríðaröflugur undir körfunum. Hann er ótrúlega lunkinn skorari sem nýtir sín færi vel. Hann skoraði alls 34 stig í leiknum og nýtti 15 af 20 skotum. Seinni ástæðan var að Keflavík var alls ekki að hitta úr langskotum eins og venjulega, 24% nýting er langt undir meðaltali, aðeins 7 af 29 skotum rötuðu rétta leið.
En svo þegar skotin loks duttu var ekki að sökum að spyrja, Guðjón, Hjörtur og Magnús skelltu niður fjórum þristum í upphafi fjórða leikhluta og þá var sagan öll. Kef náði 16 stiga forskoti og KR átti ekkert svar.
![]() |
Jón Hafsteinsson átti stórleik í gær með 14 fráköst, 6 stolnir bolta, 6 stig og 4 varin skot. Tölurnar segja þó bara hálfa söguna, því það var baráttuþrekið sem geislaði af Jonna sem skipti mestu máli. Eins var Damon öflugur, eins og við var að búast, og Gunni Einars átti enn einn toppleikinn. Drengurinn sá er í fantaformi um þessar mundir.
|
Aðrir leikmenn skiluðu sínu án þess kannski að blómstra sérstaklega. Magnús og Guðjón áttu rispur, Sverrir var "solid" og Hjörtur og Falur nýttu sér reynsluna og stýrðu leiknum örugglega í höfn. Síðustu mínúturnar rokkaði forystan frá 10 til 16 stig og endaði síðan í 9 stigum, 87-78.
Það merkilegasta við þennan leik er sú staðreynd að Keflavík gat unnið topplið deildarinnar án þess að vera í stuði! Ef varnarleikurinn er aggressívur eins og í gær, fara menn langt án þess að við eigum stórleik í sókninni. Þetta er mikilvægt veganesti í úrslitin í dag.