Hópbílamót Fjölnis fer fram um helgina
Ekkert verður leikið á Íslandsmóti yngri flokka um helgina, enda "minni-bolta-frí" þar sem helgin er helguð yngstu iðkendununum. En það er samt botnlaust fjör eins og allar aðrar helgar þegar Karfan er komin í gírinn og vetur-konungur hefur "blessað boltann".
Fjölnismenn í Grafarvogi halda sitt árlega "Hópbílamót" í Grafarvogi um helgina en þetta magnaða körfuboltamót hafa fjölmargir árgangar af keflvískum körfuboltaiðkendum sótt í gegn um tíðina. Nú sem áður látum við okkar hlut ekki eftir liggja og mætum með ein 9u lið til leiks.
Elentínus Margeirsson mætir á svæðið með ein þrjú lið úr 1.-2. bekk drengja. Peyjarnir eru gríðarlega spenntir og eiga sjálfsagt einhverjir eftir að væta lakið áður en leikar hefjast, enda ný og ókunn upplifun handan við hornið.
Björn Einarsson mæir með fjögur stúlknalið úr 5. og 6. bekk og einnig tvö drengjalið úr sömu árgöngum. Á þeim bænum ríkir sömuleiðis gríðarleg stemming og miklar væntingar til helgarinnar og þarna má finna krakka sem eru að fara á sitt sjötta Hópbílamót á jafnmörgum árum.
Allir foreldrar okkar barna eru hvattir til að taka eins mikinn þátt í mótinu eins og þeir geta enda er "Hópbílaamótið" fjölskylduskemmtun þar sem allir eiga sitt pláss. Foreldrar mega heldur ekki láta kvöldvöku mótsins fram hjá sér fara þar sem reiknað er með gríðarsterkri innkomu Ragga Torfa. sem hefur yfirleitt verið andlit og guðfaðir mótsins í senn. Passið ykkur bara að hann nappi ykkur ekki í körfuboltaskóm á kvöldvökunni, annars eigið þið á hættu að hann plati ykkur út á gólfið í Skot- eða Troðslukeppni............jafnvel þó þið kunnið ekki neitt.
Áfram Keflavík
Barna- og Unglingaráð KKDK