Fréttir

Hörður Axel á Eurobasket
Körfubolti | 5. september 2015

Hörður Axel á Eurobasket

Nú á dögunum tók KKDK stutt og gott viðtal við landsliðsmanninn og Keflvíkinginn Hörð Axel Vilhjálmsson. Hörður skrifaði nýlega undir samning við gríska úrvalsdeildarliðið Trikala en hann var síðast á mála hjá Mitteldeutscher í Þýskalandi. Hörður vann sér fastann sess í hjörtum Keflvíkinga er hann spilaði með liðinu á árunum 2008 - 2011. Stefnan hjá Herði var alltaf sett hátt og árið 2011 hélt hann út í atvinnumennskuna þegar hann gekk í raðir þýska liðsins Mitteldeutscher. Í dag hóf Ísland leika á Eurobasket og var fyrsti leikurinn gegn Þýskalandi. Ísland átti stórgóðan leik en þeir töpuðu naumlega gegn feikna sterku liði Þjóverja. Hörður stóð sig glæsilega í leiknum og skilaði 11 stigum, 6 fráköstum og 2 stolnum boltum. 
 

Hörður var léttur í lund þegar KKDK sló á þráðinn til hans í vikunni. Dagskráin hefur verið þétt fyrir Hörð og félaga síðustu vikur en Hörður gaf sér þó tíma til að svara nokkrum léttum spurningum sem við köstuðum á hann. 

Sæll Hörður og gaman að heyra í þér. Hvernig hefur sumarið verið?
Blessaður, heyrðu það hefur verið gott. Ég er búinn að fá lengri tíma heima á Íslandi en ég fengið að venjast hingað til, þannig tíminn með fjölskyldu og vinum hefur verið góður og er mér mjög dÿrmætur. Svo byrjuðum við að æfa með landsliðini um miðjan júlí og höfum ekki stoppað síðan þá.

Nú er það komið á hreint að þú verður á Grikklandi í vetur, hvernig leggst það í þig?
Grikkland lýtur vel út. Liðið og þjálfarinn leggjast vel í mig þannig ég er mjög spenntur yfir vetrinum. Að kynnast nýju landi og menningu er líka eitthvað sem heillar okkur hjónin.

Hvernig hefur undirbúningurinn fyrir Eurobasket verið? 
Hann hefur verið góður. Við byrjuðum að æfa um miðjan Júlí eins og ég minntist á áðan og einnig höfum við fengið mun fleiri æfingarleiki fyrir mót heldur en við höfum áður vanist. Þannig það er ekki yfir neinu að kvarta og það er búið að vera mjög gaman.

Nú trúi ég því að menn leggi allt í sölurnar fyrir mót eins og þetta. Í hvernig standi er skrokkurinn og hvernig er formið?
Já það er rétt við munum allir selja okkur dýrt á mótinu. Það eru allir í liðinu í hörku formi og hafa tekið lítið break í sumar til að geta staðið sig sem best á mótinu. Að komast á þetta mót var draumur okkar  en er nú allt í einu nokkrir dagar í mót!
Það er búið að vera mikil keyrsla seinustu daga, margir leikir og ferðalög, þannig skrokkurinn er svolítið eftir því. Nú fáum við hinsvegar nokkra daga til að recovera áður en fjörið byrjar mætum auðvitað allir ferskir til leiks.

Hvernig er mórallinn í hópnum?
Mórallinn í hópnum er alltaf góður, við erum allir miklir félagar, mikið og stanslaust fjör þegar hópurinn kemur saman. 

Hver er herbergisfélaginn þinn, hver er drauma herbergisfélaginn og hvern myndiru síst vilja hafa sem herbergisfélaga?
Herbergisfelaginn minn núna á Eurobasket er Martin en ég er búinn að fá nýjan herbergisfélaga í hverri ferð í sumar. Ég byrjaði á að fá stór-sveitina (Sigga Þorsteins), svo gömlu sveitina (Axel Kára) og enda a mesta malbikarbarni liðsins (Martin) þannig ég hef fengið alla flóruna.
Þetta eru allt svo fínir karlar að það er enginn sem ég væri eitthvað minna til í að vera með en annar. Brynjar væri samt liklega drauma herbergisfelaginn enda verið goðir vinir í mörg ár.

Nú að lokum, hvernig er tilfiningin að vita það að þú sért að taka þátt í einum stærsta körfuboltaviðburði heims með íslenska landsliðinu? Er þetta sokkið inn ennþá?
Það er frekar súrealískt að við séum að fara á þetta mót en við getum ekki hugsað um það núna, nú er bara komið að því að koma hér og keppa og sjá hvar við stöndum. Við getum spáð í hvað við höfum afrekað seinna þegar þetta er allt saman búið. Nú er bara spurning um að keppa og njóta þess að spila.

Við viljum þakka Herði kærlega fyrir að taka sér tíma til að spjalla við okkur og á sama tíma óskum við liðinu góðs gengis á Eurobasket. Til gamans má geta að allir leikir Íslands verða sýndir á Paddy's á Hafnargötu 38 og við hvetjum auðvitað alla til að fylgjast vel með dagskrá liðsins og styðja okkar menn til sigurs.