Fréttir

Karfa: Hitt og Þetta | 29. desember 2009

Hörður Axel Körfuknattleiks- og Íþróttamaður Keflavíkur 2009

Það voru stoltir forráðamenn Körfuknattleiksdeildarinnar sem klöppuðu ákaft þegar Hörður Axel Vilhjálmsson var kjörinn Íþróttamaður Keflavíkur 2009 nú fyrr í kvöld, en skömmu áður hafði hann verið kosinn Körfuknattleiksmaður Keflavíkur 2009. Fyrir vikið hlaut Hörður eigna- og farandbikar, ásamt því að fá eintak af 80 ára sögubók Keflavíkur íþrótta- og ungmennafélags  sem kom út fyrir stuttu. Eftirfarandi umsögn um Hörð Axel kom fram á afhendingunni í kvöld:

ÍÞRÓTTAMAÐUR  KEFLAVÍKUR
2009


Hörður Axel Vilhjálmsson
Körfuknattleiksmaður.


Helstu afrek á árinu:


Byrjunarliðsmaður í sterku liði Keflavíkur sem slegið var út af Íslandsmeisturum KR í fjögurra liða úrslitum tímabilsins 2008-2009.
Gríðarleg fyrirmynd íþróttamanna í líkamlegu atgervi, leggur mikið á
sig við æfingar, er með gríðarlegan sprengikraft og hraða, er ósérhlífinn og mikill liðsmaður. 
Hefur sýnt mikinn vilja í að ná langt og á að baki leiki sem atvinnumaður þrátt fyrir ungan aldur. 
Á að baki 16 A landsliðsleiki fyrir Íslandshönd á árunum 2007-9 og mun eflaust vera framtíðar landsliðsmaður Íslands.

Aðspurður af hinni sígildu spurningu af greinarhöfundi um hvort hann hefði búist við þessu, svaraði Hörður: ,,Alls ekki, mér fannst ótrúlegur heiður að vera kosinn Körfuknattleiksmaður Keflavíkur 2009, en þetta er alveg frábært.”

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur óskar Herði til hamingju með þessa glæsilegu viðurkenningu og vonandi mun hún verða til þess að Hörður styrkist ennfremur í leik sínum með félaginu á komandi misserum.