Fréttir

Hörður Axel Vilhjálmsson í viðtali
Karfa: Karlar | 20. mars 2014

Hörður Axel Vilhjálmsson í viðtali

Hörður Axel Vilhjálmsson er Keflvíkingum kunnur en hann lék með Keflavík áður en hann hélt í atvinnumennsku eftir tímabilið 2009-2010. Fyrstu tvö árin lék hann í annarri og efstu deild í Þýskalandi en í fyrra færði hann sig um set og leikur kappinn nú með Vallodalid í efstu deild á Spáni, deild sem margir vilja meina að sé næststerkasta deild í heimi á eftir NBA.

Við heyrðum í Herði hljóðið og spurðum hann út í tímabilið á Spáni og fleira. Auk þess fengu stuðningsmenn Keflavíkur að spyrja nokkurra spurninga. Sjáum hvað kappinn hafði að segja.

Jæja, nú er fyrsta tímabilið þitt í efstu deild á Spáni senn að ljúka (ekki satt? :)) Hvernig hefur þetta tímabil verið?
Það eru enn tveir og hálfur mánuður eftir af tímabilinu og 11 leikir þannig að það er nóg eftir af deildinni. Þetta tímabil er búið að vera það lang erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum á mínum ferli, í raun bara virkilega erfitt á allan hátt.

En ertu sáttur með tímabilið hjá liðinu og eigin frammistöðu?
Nei, ég er langt í frá að vera sáttur með bæði eigin frammistöðu sem og frammistöðu liðsins. Það hefur verið mikið um brotföll úr liðinu þannig það hefur verið erfitt að ná upp stöðuleika, bæði sem einstaklingur og sem lið. Þá fengum við einnig ekkert undirbúningstímabil sem lið og það hefur haft ansi mikið að segja.  

Hvernig er framhaldið, ertu samningsbundinn liðinu áfram?
Framhaldið er óráðið en ég gerði eins árs samning við Valladolid þannig að ég er samningslaus eftir þetta tímabil.

Eitthvað sem hefur komið þér á óvart í vetur í spænska boltanum, er þetta eins og þú bjóst við?
Þetta er í raun eins og ég bjóst við. Það sem kemur mér kannski mest á óvart er hversu vel þekktur Jón Arnór er hér á Spáni og hversu stórt nafn hann er, sem gerir athyglina sem hann fær fyrir afrek sín á Íslandi enn furðulegri.

Hvernig kanntu annars við þig á Spáni, tilbúinn að setjast þar að til lengri tíma?
Spánn er gott land og hér er fínt að vera. Körfuboltinn er á háu leveli, lífið afslappað og rólegt sem fer mínum lífstíl vel. Eftir körfuboltann stefnir minn hugur nú samt alltaf aftur heim allavega eins og er þannig að  líklega yrði ég bara hér á meðan ég væri að spila. Annars skoða ég mín mál eftir tímabilið og sé hvað kemur upp.

Aðeins hingað heim, hefur þú fylgst með Domino´s deildinni í vetur?
Já, ég hef fylgst með - séð nokkra leiki og skoða tölfræði við og við.

Hvernig hefur þér þótt gengi Keflavíkur og hverju býstu við af liðinu í úrslitakeppni?
Keflavík er búið að spila heilt yfir fínt í vetur þótt það hafi aðeins hægst á þeim en vonandi er það bara lognið á undan storminum.

Hvað telur þú styrkleika og veikleika liðsins?
Styrkleikarnir liggja nú í að hafa besta leikmann deildarinnar innan sinna raða. Keflavík er með fína breidd á hópnum sem mér persónulega finnst að ætti að vera hægt að nota betur og svo er liðið með fleiri töffara í sínu liði heldur en flest önnur lið í deildinni sem hefur sitt vægi. Hvað veikleikana varðar þá finnst mér sóknin stundum svolítið einhæf en annars er liðið nokkuð sjóað og tilbúið í það sem framundan er tel ég.

Telur þú liðið eigi raunhæfan möguleika á titlinum?
Ég tel að Keflavík séu í góðum séns að koma titlinum á Sunnubrautina aftur.  Ég tel Keflavík, KRog Grindavík þau lið sem munu berjast um titilinn. Ég vona að Keflavík nái að mynda góða stemningu, jafnt innan sem utan vallar, því þá gerast hlutirnir.

Að lokum eru hér fimm spurningar frá stuðningsmönnum Keflavíkur af Facebook;

Liggur leiðin ekki aftur í Keflavík eftir atvinnumennskuna? Þú getur ekki verið með Keflavík á ferilskránni án þess að vinna titil er það?
Það er rétt að ég á óklárað verkefni eftir í Keflavík og ég mun gera mitt til þess að upplifa það þegar sá tími kemur, vonandi eftir 10 ár eða svo. Gunni Einars tekur þá skóna fram aftur og spilar með mér tímabil í Keflavík og verður í besta formi deildarinnar.

Keflavík eða Njarðvík? Og lofaru að fara aldrei í KR?
Ég ber mikla virðingu fyrir Njarðvík, en Keflavík er samt orðið það sem ég tel heima á Íslandi. KR hefur verið í gegnum tíðina það lið sem maður vill helst vinna, þannig að fara í KR gerist seint held ég.

Kemur til greina að leysa Dj Skaftason af hólmi þegar hann hættir?
Ég gæti tekið eitt ár í Keflavík í hlutverki Jackie Moon úr Semi pro, þá væri dj starfið auðvitað partur af því. Annars geri ég ráð fyrir að dj Skaftason eigi ansi mörg ár eftir.

Hvað sérðu fyrir þér að þú verðir lengi í atvinnumennsku? Og er atvinnumennskan jafn skemmtileg og þú áttir von á?
Ég ætla að reyna að ná góðum 10 árum í viðbót eða eins lengi og heilsan leyfir. Atvinnumennskan er auðvitað mikil forréttindi, þ.e. að fá að lifa á því sem þér þykir skemmtilegast að gera auk þess að ferðast meira eða minna um alla Evrópu í leiðinni. Hún hefur þó verið mun meira krefjandi þessi þrjú ár heldur en ég bjóst við.

Finnst þér eðlilegt hve litla umfjöllun næstbesta körfuboltadeild í heimi fær í íslenskum fjölmiðlum og hvað heldur þú að valdi svona slakri umfjöllun?
Umfjölluninn um evrópskan körfubolta í íslenskum fjölmiðlum er fyrir neðan allar hellur, hvort sem það er ACB deldin á Spáni, Euroleague eða hvað sem er þá er hún bara mjög slök. Íslenskt körfuboltafólk þekkir vel til NBA deildarinnar, hún hefur verið kynnt vel fyrir Íslendingum í gegnum tíðina. Þannig að aðgengi þeirra sem hafa áhuga á körfubolta á NBA deildinni er allt miklu auðveldara heldur en að evrópskum körfubolta. NBA deildin er besta deild í heimi, þannig skiljanlega er athyglin mest þar, en þegar Íslendingar eiga tvo fulltrúa í næst bestu deild í heimi seinustu þrjú ár þá er sérstakt að því skuli ekki vera veitt meiri athygli. Oft er líka einblínt meira á glamúrlífið sem fylgir því að vera í NBA deildinni heldur en körfuboltann. Eina sem er í raun varið í NBA körfuboltann er úrslitakeppnin, þar sem leikmennirnir leggja allt undir til að vinna en þegar horft er á Euroleague til að mynda þá er miklu meira undir hverjum einasta leik. Euroleague í körfubolta er með svipuðu fyrirkomulagi og meistaradeildin í fótbolta, þar sem hver einasti leikur hefur eitthverja merkingu. Menn þekkja 12 manns á bekknum hjá Miami Heat en þekkja ekki besta spilara Evrópu seinustu tvö ár, sem er í raun bara sorglegt. En ætli þetta hafi ekki eitthvað með áhugasvið íþróttarfréttamanna að gera líka en ég vildi að ég hefði rétta svarið við þessarri spurningu.