Fréttir

Körfubolti | 10. apríl 2006

Horft fram veginn á jákvæðum nótum ....

Nú styttist vonandi í vorið og keflvískir körfuboltamenn og -konur fara að huga að framtíðinni, þ.e. næstu leiktíð. Stjórn körfuknattleiksdeildarinnar kom saman í kvöld, fundaði og ræddi stuttlega við leikmenn meistaraflokks karla. Framundan er sams konar fundur með leikmönnum meistaraflokks kvenna. Í stuttu máli má segja að mikill hugur er í mannskapnum. Allir gera sér grein fyrir því að árangur ársins var ekki sá sem stefnt var að og ekki jafn góður og undanfarin ár. En greinilegt er á öllum að mikill vilji er fyrir því að koma félaginu á efsta stall að nýju, sem fyrst.

Stjórnin mun án tafar hefja viðræður við þjálfara og leikmenn um áframhaldandi samstarf. Sumir leikmenn hafa þegar samið fyrir næsta ár en við aðra þarf að semja og tryggja þátttöku þeirra. Sem stendur er enginn á förum, þó ekki geti allir ákveðið sig strax um framhaldið. Til að byrja með þurfa stjórnarmenn að ákveða hvort þeir gefi kost á sér til frekari starfa, en útlit er fyrir að allir núverandi stjórnarmenn haldi áfram, þó með þeirri undantekningu að Sigurður B Magnússon, formaður, hefur haldið til Danmerkur. Ekki er ljóst á þessari stundum hver mun sækjast eftir því starfi, en líkur eru á því að það verði reyndur kappi.

Síðan þarf að tryggja þjálfara- og leikmannamál, þá íslensku sem allra fyrst og svo verða útlendingar ráðnir þegar líður á sumrið. Reynt verður að styrkja liðin þannig að við leggjum í ferðalag í haust með lið sem við treystum til að endurheimta Íslandsmeistaratitlana, bæði hjá körlum og konum. Framundan er annasöm tíð hjá stjórnarmönnum og fljótlega munu leikmenn einnig huga að því hvernig þeir geti bætt sinn leik fyrir næstu leiktíð. Það er nefnilega gömul saga og ný, að þeir sem nýta sumarið vel, taka framförum.

Nóg að sinni, við látum stuðningsmenn fylgjast með gangi mála hér á heimasíðunni og höfum vonandi góðar fréttir að færa á næstu dögum og vikum.

ÁFRAM KEFLAVÍK!