Fréttir

Hrannar Hólm spáir Keflavík inn í undanúrslitin en ekki lengra
Karfa: Hitt og Þetta | 25. mars 2015

Hrannar Hólm spáir Keflavík inn í undanúrslitin en ekki lengra

Hrannar Hólm, fyrrum formaður Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur til margrar ára, var mættur á leik Keflavíkur og Hauka í TM-Höllinni sl. mánudag og fylgdist þar með sínum mönnum fara með sigur af hólmi í ansi spennandi leik. Hrannar starfar í dag sem íþróttastjóri danska körfuboltasambandsins og sem slíkur ber hann ábyrgð á öllu landsliðsstarfi. Auk þess þjálfar hann kvennalandsliðið. Þessi tvö störf, sem undir eðlilegum kringumstæðum væru mönnuð af tveimur einstaklingum, þykja auðvitað ekki nóg hjá orkubolta eins og Hrannari og því starfar hann einnig með fyrirtækinu Capacent, bæði í Danmörku og á Íslandi, og er þess vegna reglulega á landinu.

Heimasíða Keflavíkur heyrði í kappanum en ljóst er að Hrannar liggur ekki á skoðunum sínum varðandi körfuboltann í Keflavík.

Jæja, nú varstu mættur á leik tvö í TM-Höllinni, hvernig þótti þér liðið standa sig?
Alltaf gaman að koma í Sláturhúsið, var orðið langt síðan síðast. Gaman að hitta marga góða vini og kunningja, tala nú ekki um þegar maður fær bæði borgara og keflavíkurgull! Síðan var auðvitað flott að Keflavík skyldi vinna leikinn, það leit ekki endilega út fyrir það, en baráttan var góð og Usher var öflugur í lokin. Gaman að sjá baráttunna í Davíð Páli. Engu að síður er ýmislegt í leik liðsins sem gjarnan mætti batna, t.d. mætti boltinn ganga betur milli manna, of mikið um drippl og einleik og svo þyrfti helst að loka miðjunni í vörninni.

Hefur þú fylgst með liðinu í vetur?
Já, ég fylgist alltaf með úrslitum og skoða tölfræði og slíkt, bæði hjá karla- og kvennaliðinu. Ræturnar eru jú í Keflavík og mér þykir alltaf vænt um körfuna í Kef en ég á margar góðar minningar þaðan. Það hefur þó ekki verið neitt sérstaklega spennandi að fylgjast með karlaliðinu undanfarin ár.

Hvernig heldur þú að framhaldið verði?
Leikirnir við Hauka hafa verið jafnir og þótt Haukaliðið sé bæði ungt og skemmtilegt þá virðist þá vanta haus og reynslu til að taka réttar ákvarðanir þegar mikið liggur við. Keflavík fer klárlega í undarúrslit, þó hugsanlega taki Haukarnir næsta leik. Það kæmi mér samt á óvart ef Keflavík kemst lengra en það, þrátt fyrir að Siggi sé góður þjálfari og allir gjarnan vilja vinna.

Hvernig metur þú þitt gamla félag til framtíðar, þá í kvk og kk flokki? Einhverjar breytingar sem þú myndi vilja sjá - t.d. hvað áherslur og annað varðar?
Karlamegin myndi ég vilja sjá verulegar breytingar. Titlar og landsliðsmenn meistaraflokka eru prýðilegur mælikvarði á árangur starfsins og nú er lítið af báðu. Gullaldartímabilið er liðið, ekki hefur unnist Íslandsmeistaratitill í 7 ár en 20 árin þar á undan var Keflavík sigursælasta lið landsins með 9 slíka. Það hafa aldrei áður liðið 7 ár milli Íslandsmeistaratitla.

Það er mitt mat að við sváfum á verðinum meðan að knattspyrnan byggði fótboltahús og tók alla hæfileikaríkustu íþróttamennina. Við urðum undir í samkeppninni og þurfum að taka okkur á. Við eigum engan landsliðsmann í dag og enginn er sjáanlegur í næstu framtíð. Við erum bara meðalklúbbur. Það þarf að leggja ofuráherslu á yngri flokka starfið, byrja á leikskólaaldri og vera með hágæðaprógramm sem er líka skemmtilegt. Þjálfararnir í yngri flokka starfinu eru algert lykilatriði. Þeir þurfa að vera faglega góðir og sinna öllum iðkendum. Fókusera á að kenna körfubolta en ekki á að vinna leiki. Ef það gerist ekki verðum við áfram í meðalmennskunni. Vissulega er hægt að kaupa og reyna að laða að leikmenn, en það er dýrt.

Stúlknamegin líta málin betur út, enda stöndum við framar í samkeppninni þar. Það þarf að halda áfram því góða starfi sem verið er að vinna og stöðugt leita leiða til að verða betri. Ég hef ekki séð mikið af leikjum með kvenna- og stúlknaliði, en miðað við það sem ég hef séð þá má klárlega auka fókus á kennslu grundvallaratriða. Það er á endanum það sem er mikilvægast.

Mér finnst heilt yfir varnartæknivinna á Íslandi vera léleg og þar þurfum við að bæta okkur verulega, það gildir fyrir alla, bæði konur og karla. Það vantar ekki baráttuna en varnartæknin er heilt yfir afar slök.

Nú er þetta orðið ágætt og ég óska Keflvíkingum alls hins besta, bæði í úrslitakeppninni og um alla framtíð

Mynd sem fylgir fréttinni er fengin að láni hjá www.visir.is.