Fréttir

Körfubolti | 18. nóvember 2006

Hrikalega svekkjandi ósigur gegn Dnipro í gær

Allan leikinn, allt fram á 38. mínútu fannst manni að Keflavík myndi hafa sigur í fyrsta heimaleiknum í Evrópukeppninni í gærkvöldi. Okkar menn voru ávallt fetinu framar en úkraínsku gestirnir frá Dnipro, þótt ekki hafi munurinn verið mikill, ef frá eru taldar fyrstu mínúturnar. En í stöðunni 88-88 breyttist allt. Dnipro menn náðu tveimur þriggja stiga sóknum, fyrst eftir sóknarfrákast og síðan með þriggja stiga skoti, án þess að Keflavík næði að svara á milli. Þannig náðu þeir óvænt og snöggt sex stiga forskoti sem ekki varð brúað þrátt fyrir ágæta tilburði. Maggi gerði lokakörfuna þegar ein sek. lifði leiks og ekki vannst tími til frekari aðgerða, lokastaðan var 96-97 og vonir okkar til stórræða í Evrópukeppninni strax orðnar óverulegar.

En leikurinn var frábær skemmtun fyrir áhorfendur, mikið skorað, rosaleg spenna og flottur sóknarkörfubolti í 40 mínútur. Áhorfendur fengu flottan leik fyrir peninginn í gærkvöldi.


Jonni átti fínan leik í gær, leggur hér boltann í körfuna

Leikur okkar manna í gær var í stórum dráttum nokkuð góður, að minnsta kosti sóknarleikurinn. Skotnýtingin var góð (yfir 50%), þriggja stiga nýtingin einnig (40%) og vítin vel nýtt. Eini gallinn við sóknarleikinn var að of mörgum boltum var tapað, um 20, en það hefur verið vandamál hjá okkur í vetur. Ef við náum að fækka þessum sóknarmistökum myndi leikurinn batna enn frekar. Thomas og Magnús voru bestir í sókninni, einnig áttu Jermaine og Jonni flottan leik, þótt Jonni hefði að ósekju mátt leika meira. Tim nýtti færin sín vel, en komst einhvern veginn ekki í takt við sóknina og tók kannski of fá skot. En það var þó ekki sóknarleikurinn sem varð okkur að falli, þótt hann hafi klikkað í blálokin.

Miklu frekar var það vörnin sem brást í þessum leik. Á heimavelli verðum við að geta haldið andstæðingum betur niðri en við gerðum í gær. Í raun verðum við að vinna þegar sóknin gengur jafn vel upp og í gær. Dnipromenn áttu allt of auðvelt með að splundra vörn okkar manna allan leikinn. Það endaði með með of mörgum auðveldum skotum  (65% skotnýting í 2ja), of mörgum vítum (35) og of mörgum sóknarfráköstum (16). Okkar bakverðir náðu ekki að stoppa keyrslur inn í vörnina og voru Arnar, Maggi og Tim í villuvandræðum allan leikinn. Þessi leikur tapaðist á slökum varnarleik, en auðvitað er auðvelt að rita slíkt, en ekki jafnauðvelt að framkvæma, því leikmenn Dnipro eru afar leiknir og öflugir í grundvallaratriðum körfuboltans, geta allir sent  boltann vel, eru góðar skyttur, hafa góðan leikskilning og geta dripplað og keyrt upp að körfunni. Týpiskur austur Evrópskur "fundamental" körfubolta, flott lið, engin spurning. Það var þess vegna sérlega sorglegt fyrir okkar menn að hafa náð prýðilegum leik og að hafa leitt allan leikinn en uppskera ekki sigur. En svona er boltinn.

Magnús og Tómas voru bestu menn liðsins í kvöld. Jermaine, Jonni og Arnar áttu einnig prýðisleik, Tim var of rólegur, Sverrir var góður í vörn, en honum voru mislagðar hendur í sendingum, Gunni Einars náði sér ekki á strik. Bestu menn Dnipro voru nr. 8 og 9, Ivanov og Koval.

Næsti leikur í keppninni er næsta fimmtudag gegn Norrköpping frá Svíþjóð. Vonandi tekst að landa sigri þar .... :)

ÁFRAM KEFLAVÍK