Fréttir

Körfubolti | 18. janúar 2004

Hrós til stuðningsmanna Keflavíkur

Heimasíðan hefur lengi fylgst með körfuboltanum í Keflavík og kynnst mikilli velgengni og einnig erfiðum tímum inn á milli. Stuðningmenn liðsins eru fjölmargir og hafa í gegnum tíðina mætt vel á leiki, þó sérstaklega á stórleiki, svo sem úrslitakeppni og Bikarúrslit. Einnig hefur það fylgt okkur að láta vel í okkur heyra á útileikjum, en stundum er stemming lítil á “venjulegum” heimaleikjum, kannski að tvískipting áhorfenda í húsinu eigi þar sök.

Það er hryggileg staðreynd að “venjulegir” leikir virðast ekki hafa sama aðrdáttarafl og áður fyrr, nú virðist þurfa stórleiki til að lokka fólk á leikinn. Kannski eru leikirnir einfaldlega of margir eða kannski bara ekki nógu spennandi, það er erfitt að segja. Það er þó öruggt að körfuboltanum hefur farið fram og nánast ávallt eru leikmenn liðsins reiðubúnir til að leggja sig fram til að vinna leiki og skemmta áhorfendum.

Heimasíðan horfði á upptöku af beinni útsendingu leiksins í gær gegn Grindavík og það hefði mátt halda að leikurinn hefði farið fram í Keflavík en ekki Grindavík, því það eina sem heyrðist allan tímann voru “Áfram Keflavík” hróp stuðningsmanna okkar. Þetta er frábært að heyra og er drengjunum á vellinum mikil hvatning. Við vitum að stuðningsmenn munu láta verulega að sér kveða í úrslitaleiknum í Höllinni eftir þrjár vikur.

Stuðningsmenn hafa misjafnar aðferðir til að hvetja sitt lið, menn eru mis-aktívir og mis-heitir. Sumir hvetja látlaust, sumir klappa bara, sumir segja ekki neitt, sumir berja trommur, aðrir röfla mikið í dómurum, sumir jákvæðir, aðrir neikvæðir og svo framvegis. En allir eiga stuðningsmennirnir það sameiginlegt að vilja liði sínu það besta.

Eftir leikinn í Grindavík í gær var skrifað á spjall okkar um að sumir stuðningsmenn hefðu verið orðljótir. Vefstjóri kaus að eyða þeim spjallþráðum þar sem ekki er við hæfi að ráðast á einstaka stuðningsmenn fyrir það hvernig þeir kjósa að haga sér á leikjum. Engin ein hegðun er “rétt” og það sem sumir fíla finnst öðrum óþolandi. Til dæmis má nefna trommugengið ógurlega sem hefur skapað góða stemmingu á mörgum leikjum. Stjórnin hefur barist fyrir því að þeir fái að berja sínar trommur og skapa hávaða, þrátt fyrir að sumum áhorfendum finnist þetta nánast óþolandi. Þannig er smekkur manna misjafn.

En Heimasíðan vill hvetja stuðningsmenn til að halda sig innan kurteisismarka, jafnvel þótt spennan geti kallað fram alls konar orð í hita leiksins. Heimasíðunni finnst allt í lagi að láta í ljós óánægju ef dómarar gera mistök, en hins vegar er leiðingjarnt að gera athugasemd við hvern einasta dóm, líkt og stundum heyrist. Það er líka óþarfi að vera orðljótur, hvort sem er í garð dómara eða andstæðinga.

Það sem gerir mest gagn fyrir liðið okkar er mikil og hávær hvatning allan leikinn, ekki síst ef illa gengur. Heimasíðan vill hvetja menn til að standa dyggilega á bak við sitt lið, líkt og var gert á Grindavíkurleiknum.  Framundan eru sannkallaðir stórleikir, Evrópuleikur gegn Dijon, deildarleikur gegn Njarðvík og svo sjálfur úrslitaleikurinn í Bikarnum gegn Njarðvík. Í öllum þessum leikjum mun liðið þurfa á góðum stuðningi til að ná fram sínu besta, vonandi verður fjölmenni í húsum og stemmingin frábær, því þannig á það að vera.

Áfram Keflavík!