Hvað gerist í lokin? Spáð í spilin fyrir síðustu umferðirnar í Iceland Express deildinni
Nú þegar þrjár umferðir eru eftir af Iceland Express deildinni er rétt að staldra við og skoða stöðuna.
Baráttan um Deildarmeistaratitilinn
Njarðvíkingar standa með pálmann í höndunum, ef svo má segja, því ef þeir vinna þá þrjá leiki sem þeir eiga eftir, þá verða þeir deildarmeistarar og tryggja sér heimavallarréttinn í gegnum alla úrslitakeppnina. En leikir Njarðvíkinga eru ekki auðunnir, því þeir þurfa að leika gegn nýkrýndum bikarmeisturum Grindavíkur á útivelli og síðan í lokaumferðinni gegn Íslandsmeisturum Keflavíkur, einnig á útivelli.
Við Keflvíkingar eigum leiki framundan gegn Fjölni (heima) og Hamri Selfossi (úti) áður en að Njarðvíkurleiknum kemur. Eins og staðan er í dag má gera ráð fyrir því að sá leikur verði úrslitaleikur um deildartitilinn. Ef bæði liðin vinna næstu tvo leiki, þá þarf Keflavík að vinna með 25 stigum sem gæti reynst þrautin þyngri, en ef Njarðvík myndi misstíga sig, t.d. í Grindavík, en Keflavík vinna sína tvo, þá yrði um hreinan úrslitaleik að ræða. Ekki leiðinleg tilhugsun það! En það eina sem okkar menn geta gert er að leika af krafti í næstu tveimur leikjum og sjá svo til hvernig staðan verður fyrir lokaumferðina.
Keflavíkurliðið hefur sýnt á köflum í vetur að það getur leikið vel, þó vissulega hafi liðið beðið skipbrot í Bikarúrslitunum. Einhverra hluta vegna vantaði grimmd og baráttu í þann leik, en slíkt er fátítt í stórleikjum hjá okkar mönnum. Heimasíðan telur að við getum gert ráð fyrir alvöru stemmingu hjá okkar mönnum það sem eftir lifir móts, en eins og við höfum margoft séð, þá er liðið best þegar vörnin er grimm. Stóru strákarnir okkar, Vlad, Dóri og Jonni þurfa að vera sterkir á lokasprettinum, sér í lagi gegn Njarðvík.
Baráttan um sæti 3 og 4
Fjögur félög berjast um þau tvö sæti sem gefa afar mikilvægan heimavallarrétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar, KR, Snæfell, Skallagrímur og Grindavík. Reyndar á KR enn möguleika á öðru sætinu, en hann felst í því að okkar menn tapi öllum leikjunum sem eftir eru.
KR stendur best að vígi með 26 stig, en hin þrjú liðin hafa 24 stig. Ef síðustu þrjár umferðirnar eru skoðaðar kemur þó í ljós að Grindavík á erfiðasta prógrammið eftir, Njarðvík (heima), Skallar (úti) og KR (heima). Snæfell og Skallar eiga "auðveldari" leiki eftir. Skemmtilegt að sjá að í þessum þremur umferðum sem eftir lifa eru þrjár innbyrðis viðureignir: Snæfell – KR, Skallagrímur – Grindavík og Grindavík – KR. Vonlaust er að spá fyrir um hvernig liðin munu raðast niður í lokin, en vissulega verður erfitt fyrir Grindavík að ná heimavallarrétti. Vesturlandsliðin eiga léttari leiki eftir, svona fyrirfram séð, og gætu tyllt sér í þessi eftirsóttu sæti.
Baráttan um 7. sætið
ÍR og Fjölnir berjast um 7. sætið. ÍR er tveimur stigum ofar en Fjölnir og á þar að auki mun léttari leiki eftir. ÍR leikur gegn Haukum, Þór og Hamri, en Fjölnir mætir Keflavík, Njarðvík og Skallagrími. Það kæmi því verulega á óvart ef Fjölnir næði að hífa sig upp í 7. sætið. Reyndar gæti Hamar Selfoss gert atlögu að 8. sætinu, ef svo illa færi fyrir Fjölni að þeir töpuðu öllum þeim leikjum sem eftir eru. Hamar á eftir Þór, Keflavík og ÍR, og ef þeir vinna tvo þeirra myndu þeir jafna við Fjölni. Heimasíðan veit ekki um innbyrðis stöðu milli Fjölnis og Hamars, en hver veit nema hún geti skipt máli í lokin?
Hverjir falla?
Hamarsmenn eru búnir að redda sér frá falli, en hin liðin gætu öll orðið jöfn að stigum ef ekkert þeirra myndi vinna leik sem eftir er fyrr en Höttur myndi vinna Hauka í lokaumferðinni. Ef öll yrðu jöfn á þennan hátt myndi Þór halda sér uppi og Haukar lenda í neðsta sætinu. Eini sénsinn fyrir Hött til að bjarga sér frá falli er að komast upp fyrir Þór í stigum talið, en það þýðir að þeir þyrftu að leggja annað hvort Skallagrím á heimavelli eða KR á útivelli, svo og Hauka í síðustu umferðinni. Heimasíðan telur það nánast útilokað. Þá er bara spurningin hverjir fylgja Hetti niður? Ef Haukar og Þór verða jöfn að stigum, þá halda Haukar sér uppi (svo lengi sem Höttur verður fyrir neðan). Haukar eiga eftir að leika gegn ÍR, Snæfelli og Hetti, en Þórsarar eiga eftir Hamar, ÍR og Snæfell.
Spáin:
Eftir þessar pælingar gerir Heimasíðan ráð fyrir að lokastaðan í deildinni verði þessi, með smá óskhyggju í vegarnesti:
1. Keflavík 36 stig (eftir sigur í hreinum úrslitaleik gegn Njarðvík)
2. Njarðvík 34 stig (leggjum til að þeir tapi í Grindavík :)
3. Snæfell 30 stig (vinna alla þrjá leikina sem þeir eiga eftir)
4. Skallagrímur 30 stig (vinna þrjá síðustu)
5. Grindavík 28 stig (tapa gegn Sköllum, en vinna Njarðvík og KR)
6. KR 28 stig (tapa gegn Grindavík og Snæfelli, vinna Hött)
7. ÍR 24 stig (vinna þrjá síðustu)
8. Fjölnir 16 sig (tapa þremur síðustu)
9. Hamar 14 stig (vinna Þór, tapa gegn Kef og ÍR)
10. Haukar 10 stig (vinna Hött í lokaumferðinni)
11. Þór 8 stig (tapa rest)
12. Höttur 6 stig (tapa rest)
Þór gæti þó unnið ÍR í næst síðustu umferðinni, en það myndi engu breyta um röð liðanna.
.....og nú sjáum við til hvort eitthvað vit er í þessu hjá okkur .... :)