Íslandsmeistararnir að finna taktinn
Keflavíkurhraðlestin hrökk svo sannalega í gang í kvöld eftir að hafa hikstað í síðasta leik í Borgarnesi. Leikurinn byrjaði með látum en Borgnesingar höfðu þó í við okkur í fyrsta leikhluta 30-26. Það er ótrúlegt miðað við lokatölur að staðan hafi verið jöfn strax í öðrum leikhluta 30-30 en eftir það leit Keflavík aldrei til baka. Skallagrímsmenn virtust ráðlausir og voru sem byrjendur á tímabili enda ekki gott að ráða við lið sem spilar eins og Keflavík gerði í kvöld.
Stuðningsmenn Skallagríms fjölmenntu í Sláturhúsið og fá hrós fyrir góða mætingu. Stuðningsmenn Keflavíkur gerðu en betur og tóku vel undir með Trommusveitinni sem skemmtu áhorfendum með söng og hvatningu. Smá taugaspenna var í byrjun leiks og þurftu liðin 2 mín. til að komast yfir hana. Jovan byrjaði leikinn vel fyrir Skallanna og var sá eini á tímabili með lífsmarki . AJ lét verja frá sér fyrsta skotið en eftir það fór hann heldur betur á stað. Elli og Vlad voru einnig mjög einbeittir í byrjun leiks.
Annar leihluti byrjaði af krafti og staðan þegar hann var hálfnaður 42-39. Þá komu 17 stig í röð hjá Keflavík og eftir það átti Borgnesingar í raun aldrei möguleika. AJ Moye var með 25 stig í hálfleik hjá Keflavík og Magnús Gunnarsson 11 en Jovan Zdravevski var með 17 stig hjá Skallagrím. Byrd var aðeins með 5 stig í hálfleik og staðan 63-43.
Þeir sem héldu að Keflavíkingar myndu draga úr hraðanum í seinni hálfleik höfðu heldur betur rangt fyrir sér. Keflavík skoraði í raun 30 stig eða meira í öllum 4 leikhlutunum og spiluðu frábæra vörn sem varð til þess að Skallagrímur tapaði 23 boltum. Í raun var bara eitt lið á vellinum í seinni hálfleik og í 4. leikhluta voru lykilmenn hvíldir en eins og allir vita er Keflavík með besta bekinn í deildinni og engu máli skipti hver var inná.
Bestur í kvöld var AJ sem lék sér að varnarmönnum Borgnesinga og skoraði 37 stig, tók 12 fráköst, 8/8 í vítum og 3/4 í þristum. Allir aðrir leikmenn léku frábærlega og liðsheildin maður leiksins. Sverrir var frábær í vörninni og þeir leikmenn sem hann dekkar voru í ruglinu. Maður tók því mjög vel eftir því hvað hans var sárt saknað í Borgarnesi á mánudaginn síðasta. Elli sem byrjaði inná í þessu leik nýtti sitt tækifæri mjög vel og lék góða vörn ásamt því að skora 7 stig og taka 4 fráköst ( klikkaði á einu skoti í leiknum:) Maggi skoraði 14 stig og smellti niður þremur þristum. Vlad skoraði 14 stig, 2 þristar og 6 fráköst. Gunnar E. skoraði 14 stig, 2/2 í þriggja og stal 3 boltum. Guðjón Skúlason sýndi skemmtileg tilþrif, skoraði 14 stig, 4 þristar í 5 tilraunum. Arnar stjórnaði leiknum vel og hikaði ekki við að keyra á vörnina. Arnar skoraði 10 stig, 9 stoðsendingar og 2/3 í þriggja. Gunnar Stef. setti niður 10 stig, 2 þristar og 4/4 í vítum. Halldór átti mjög góða innkomu og var í erfiðu hlutverki í að dekka Byrd en stóðst verkefnið með prýði. Halldór skoraði 5 stig og Jonni var með 4 stig og á mikið inni. Jón Gauti kom svo inná í 4. leikhluta og náði sér í reynslu í reynslubankann.
Stuðningsmenn Keflavíkur hafa vitað að liðið ætti mikið inni í síðustu leikjum og því var gaman að sjá liðið sýna sínar bestu hliðar. Borgnesingar vilja gleyma þessum leik sem fyrst og mæta af krafti í næsta leik sem er í Borgarnesi á mánudaginn kl.20.00. Að sjálfsögðu fjölmennum við á þann leik og hvetjum liðið áfram. Rútuferðir verða í boði frá Sláturhúsinu. Áfram Keflavík.
