Íslandsmót yngri flokka - lokakaflinn hefst um helgina
Lokakafli Íslandsmóts yngri flokka fer nú í hönd þegar 4. og síðasta umferð fjölliðamótanna hefst nú um helgina og reyndar byrjar 8. flokkur stúlkna strax í dag, föstudag.. Alls mæta fjórir aldursflokkar til keppni og verða tvö af þessum mótum á heimavelli í Keflavík. Hin tvö mótin verða á landsbyggðinni og einnig leikur Unglingaflokkur karla í Stykkishólmi á föstudagskvöld þegar þeir mæta sameiginlegu liði Snæfells/Skallagríms kl. 20.00 ,en þetta er næst síðasti leikur drengjanna í deildinni.
Spilað verður til Íslandsmeistaratitils um helgina í 8. flokki drengja og stúlkna en í 11. flokki drengja og Stúlknaflokki er baráttan um að tryggja sér gott sæti í undanúrslitum mótsins sem fara fram fyrrihluta aprílmánaðar.
Dagskrá helgarinnar í 4. umferð Íslandsmótsins:
8. flokkur stúlkna eru algjörlega ósigraðar í A-riðli í vetur og hafa því unnið sér inn heimavallarréttinn í síðustu umferðinni. Haldi þær uppteknum hætti geta þær orðið Íslandsmeistarar í Toyotahöllinni á sunnudag og nokkuð ljóst er talið að þessar stelpur ætli sér ekkert annað.
Fyrri leikdagur mótsins fer fram á föstudag í Heiðarskóla en þá leika stelpurnar gegn KR kl. 18.00 og síðan við Grindavík kl. 21.00. Á sunnudeginum færist mótið í Toyota höllina og þá leika stúlknurnar við Hauka kl. 12.00 og að lokum verður síðasti leikur mótsins og líklega úrslitaleikur, gegn grönnum vorum og erkifjendunum í Njarðvík kl. 14.00. Við hvetjum alla til að mæta og styðja við bakið á stúlkunum.
Stúlknaflokkur hefur einnig með frábærum árangri í fyrstu 3. umferðum mótsins tryggt sér heimavallarréttinn í lokaumferð A-riðlis. Stelpurnar hafa einungis tapað einum leik í vetur og eru nýkrýndir bikarmeistarar í sínum aldursflokki (f.´93 og ´94).
Mótið í Stúlknaflokki fer allt fram í Heiðarskóla. Stúlkurnar hefja leik á laugardagsmorgni gegn Valsstúlkum kl. 11.15 og leika síðan við Njarðvík kl. 15.00. Á sunnudaginn leika þær við Hamar kl. 12.30 og að lokum við Hauka kl. 15.00
8. flokkur drengja fer á Krókinn og leikur í B-riðli. Strákarnir léku fyrstu tvær umferðinar í A-riðli en náðu engan veginn að sýna sitt rétta andlit í 2. umferð í Þorlákshöfn og töpuðu öllum leikjunum. Ekki tókst þeim heldur að hífa sig upp í A-riðil í 3.umferð þar sem þeir unnu þrjá leiki en töpuðu þeim síðasta. Það eru mörg jöfn lið í þessum árgangi og t.d. vann Þór/Hamar 2. umferðina en eru engu að síður dottnir niður í B-riðil nú líkt og Keflavík. Nú snýst þetta bara um það að enda tímabilið með viðeigandi sæmd og vinna þennan B-riðil. Þannig geta þeir hafið næsta tímabil þar sem þeir eiga réttilega heima þessir peyjar, í A-riðli.
Drengirnir leika á laugardag gegn Breiðablik kl. 12.15 og gegn hemamönnum í Tindastól kl. 14.15. Á sunnudag leika þeir gegn Stjörnunni kl. 09.00 og að lokum kl. 12.00 gegn sameiginlegu liði Þórs Þ./Hamars.
11. flokkur drengja féllu alla leið niður í C-riðil í 2. umferð en rifu sig strax upp aftur í 3. umferð og fara í Stykkishólm og leika þar síðustu leiki tímabilsins í B-riðli.
Drengirnir leika á laugardaginn gegn Fjölni b kl. 13.00 og gegn liði heimamanna í Snæfell kl.15.30. Á sunnudaginn verður leikið gegn Breiðablik kl. 09.00 og að lokum gegn liði ÍR kl. 11.30.
Áfram Keflavík og eigið góða helgi