Jólamót NETTÓ og ÍR fer fram um helgina
Nú má nánast segja að allir yngri flokkar körfuknattleiksdeildar Keflavíkur séu komnir í jólafrí frá öllu mótahaldi fyrir áramót. Aðeins einn viðburður er eftir sem er mót fyrir yngstu iðkendurna og fer fram nú um helgina.
Jólamót NETTÓ er málið, en það er minniboltamót sem Körfuknattleiksdeild ÍR stendur fyrir. Eins og allir körfuknattleiksunnendur þekkja eru þeir eitt af grasrótarfélögum íslenks körfubolta og því er vel við hæfi að þeir ýti slíku móti úr vör. Það verður einnig að teljast sérstaklega ánægjulegt hvað NETTÓ leggur sig fram um að styðja unglingastarf hinna ýmsu íþróttagreina víða um land og fyrir félögin okkar hér í Reykjanesbæ, Keflavík og Njarðvík, þá er þessi verslun í fararbroddi annarra sambærilegra fyrirtækja í slíkum stuðningi.
Jólamótið er raunar nýtt af nálinni og "generalprufan" fer fram á glænýju parketgólfi í Seljaskóla. Að sjálfsögðu mætum við Keflvíkingar til leiks með nokkur lið og tökum þátt í fjörinu.
KefStef (Gunnar Stefánsson) mætir með strákana í 3. og 4. bekk og hafa þeir sett fjögur lið á skýrslu um helgina. Þeir eru orðnir ansi hungraðir í ferska mótherja peyjarnir, enda er þetta fyrsta mótið þeirra í vetur og tími til kominn á nýrri áskorun, en að leika innbyrðis á æfingum. Það er því ekki ólíklegt að taka þurfi lokið af sjúkrakassanum um helgina, leggja niður einn og einn plástur, heitann bakstur eða burðarpoka af klökum á einhvern peyjann í hamagangi helgarinnar.
Helena Jónsdóttir mætir einnig til leiks með pæjur úr 1. og 2. bekk sem ætla að vera með eitt öflugt lið. Stelpurnar í 3. og 4. bekk ætluðu einnig að mæta með 2-3 lið, en skráningar í þann aldursflokk nægðu ekki til að hægt væri að gangsetja mót í þeirra aldursflokki. Þær voru nú "þokkalega ósáttar" með það þessar ungu og efnilegu dömur, en hafa verið huggaðar í bili, með loforði um að þær fái útrás á Actavis móti Hauka í byrjun janúar.
Unglingaráð KKDK óskar mótshöldurum og iðkendum velfarnaðar um helgina.
ÁFRAM KEFLAVÍK