Fréttir

Körfubolti | 5. nóvember 2006

Kara og Thomas bestu leikmenn síðustu umferðar

Kara var óstöðvandi gegn ÍS
 
Margrét Kara Sturludóttir, 17 ára framherji Keflavíkur, stóð sig best í 3. umferð Iceland Express deildar kvenna samkvæmt þeirri viðamiklu tölfræði sem er tekin saman um leikmenn. Margrét Kara fékk 43 í einkunn á leikvarpinu en sú einkunn er reiknuð út á sama hátt og Efficiency jafnan í NBA-deildinni. Margrét Kara er fyrsti íslenski leikmaðurinn sem nær besta árangri í umferð í vetur. Fjórða umferðin hefst annað kvöld með stórleik í Grindavík þar sem Grindavík og Haukar mætast.

Margrét Kara Sturludóttir átti frábæran leik þegar Keflavík vann 72-63 sigur á ÍS í Kennaraháskólanum. Kara var með 22 stig, 16 fráköst, 7 stoðsendingar, 7 stolna bolta og 2 varin skot í leiknum en hún nýtti 9 af 18 skotum sínum og tapaði ekki nema einum bolta. Margrét Kara skoraði meðal annars sjö fyrstu stig leiksins og kom síðan að öllum körfum Keflavíkurliðsins í lokaleikhlutanum, skoraði þrjár körfur sjálf og átti síðan þrjár stoðsendingar að auki.        texti. kki.is


 

Thomas átti góðan leik á móti Þór

Tveir leikmenn voru efstir og jafnir í framlagi í 5. umferð Iceland Express deildar karla en þeir Thomas Soltau hjá Keflavík og Keith Vassell hjá Fjölni stóðu sig best samkvæmt þeirri viðamiklu tölfræði sem er tekin saman um leikmenn. Báðir fengu þeir fékk 34 í einkunn á leikvarpinu en sú einkunn er reiknuð út á sama hátt og Efficiency jafnan í NBA-deildinni.

Thomas Soltau fær þó útnefningu besti leikmaður umferðarinnar en hann hafði betur gegn Vassell í öllum þremur tölfræðiþáttunum sem eru notaðir til að gera upp á milli þegar leikmenn eru jafnir. Sjötta umferðin hefst í kvöld með tveimur leikjum í Keflavík og Stykkishólmi en þeir voru færðir fram vegna þátttöku Keflavíkur og Njarðvíkur í evrópukeppninni. Leikirnir hefjast báðir klukkan 19.15.

Thomas Soltau átti mjög góðan leik með Keflavík þegar liðið vann 107-68 sigur á Þór í Þorlákshöfn og var með 24 stig, 11 fráköst, 2 stoðsendingar og 2 stolna bolta í leiknum en Daninn stóri nýtti 11 af 16 skotum sínum og bæði vítin sín. Keith Vassell lék mjög vel með Fjölni sem varð að sætta sig við 80-94 tap fyrir Skallagrími á heimavelli. Vassell var með 16 stig, 16 fráköst, 3 stoðsendingar, 2 stolna og 2 varin skot í leiknum auk þess að nýta 7 af 10 skotum sínum.      texti kki.is

Thomas og Tim með tilþrif í leiknum á móti Þór.