Karfan og Ljósalögin 2002-2009 sameina krafta sína
Næstu daga munu stúlkur frá Körfuknattleiksdeild Keflavíkur ganga í hús og bjóða til sölu nýjan og glæsilegan safndisk sem gefinn er út í tilefni 10. ára afmælis Ljósanætur. Á disknum sem ber nafnið Ljósalögin 2002-2009, má finna öll lögin sem hafa unnið ljósalagakeppnina frá upphafi. Diskurinn geymir einnig 6 lög sem orðið hafa í öðru sæti auk þess sem lokalagið á disknum er lagið "Gamli bærinn minn" eftir Gunnar Þórðarson og Þorstein Eggertsson sem ávallt er flutt við lok stórglæsilegrar flugeldasýningar Ljósanætur.
Keppnin um Ljósalagið var fyrst haldin árið 2002 þar sem leitað var eftir einkennislagi Ljósanætur og sigraði Ásmundur Valgeirsson þá með lagið „Velkomin á Ljósanótt“. Lagið hefur síðan verið flutt við setningu Ljósanætur ár hvert. Síðan þá hefur keppnin verið haldin í ýmsum myndum og mörg góð lög litið dagsins ljós svo sem „Ljóssins englar“ eftir Magnús Kjartansson og „Ástfangin“ eftir Védísi Hervöru. Árið 2007 var engin keppni haldin en Jóhann Helgason fenginn til að semja Ljósalag og fékk það nafnið „Ó, Keflavík“.
Í ár var tekin sú ákvörðun að heiðra minningu Rúnars Júlíussonar með því að velja lag úr hans safni sem Ljósalag árins. Ég sá ljósið heitir lagið eftir Rúnar en það kom fyrst út á sólóplötu hans 1976 og samdi hann bæði lag og texta. Lagið hefur verið sett í nýjan búning og er nú sungið af Sigurði Guðmundssyni. Um hljóðfæraleik sáu Baldur Þórir Guðmundsson, Björgvin Ívar Baldursson, Björn Árnason, Júlíus Freyr Guðmundsson og Þórir Baldursson.
Diskurinn kostar 2.000 kr. og er kjörin til að keyra upp stemminguna á heimilinu fyrir Ljósanótt.