Fréttir

Karfa: Karlar | 1. október 2010

Karfan.is spáir karlaliði Keflavíkur 3. sæti

Karfan.is hefur nú birt spá sína um Iceland Express deild karla, en þar er Keflvíkingum spáð 3. sæti í vetur. Spáin var birt á vef karfan.is í morgun og eftirfarandi umsagnir var þar að finna:

Karfan.is birtir nú spá sína fyrir komandi leiktíð í Iceland Express deild karla. Leitað var fanga víða hjá boltaspekingum landsins sem komust að eftirfarandi niðurstöðu. KR var spáð titlinum að þessu sinni og samkvæmt spánni eru bæði nýliðar KFÍ og Hauka hólpnir en Hamar og Tindastóll munu falla.
Í atkvæðagreiðslunni fékk KR 108 stig en fast á hæla þeirra komu Íslands- og bikarmeistarar Snæfells með 105 stig. Keflvíkingar komu svo inn í þriðja sæti með 100 stig. Taka skal fram að þetta er spá sem unnin er af Karfan.is og spekingum síðunnar en í næstu viku mun Körfuknattleikssamband Íslands birta sína eigin spá sem jafnan er unnin af þjálfurum og fyrirliðum liðanna í úrvalsdeildunum.
 
Spá Karfan.is 2010-2011 í Iceland Express deild karla:
 
KR              108
Snæfell      105
Keflavík      100
Stjarnan     92
Njarðvík      73
Fjölnir         72
Grindavík    71
ÍR                 42
KFÍ               36
Haukar       32
Tindastóll  26
Hamar       23
 
Aðeins þrjú lið fengu 100 stig eða meira og hafði KR betur gegn Snæfell með naumindum. Vesturbæingum hefur gengið vel á undirbúningstímabilinu og án erlends leikmanns töpuðu KR-ingar naumlega gegn Snæfell í úrslitum Lengjubikarsins eftir að hafa leitt nánast allan leikinn. Snæfell og Keflavík hafa einnig gert það gott á undirbúningstímabilinu sem og Fjölnismenn sem spáð er 6. sæti í deildinni. Að þessu sinni verða það svo Hamar og Tindastóll sem falla samkvæmt spánni og báðir nýliðarnir, Haukar og KFÍ, halda sínu sæti í deildinni.
 
12. sæti – Hamar
Samkvæmt spánni kemur það í hlut Hamars að falla þetta tímabilið. Ágúst Sigurður Björgvinsson og lærisveinar í Hveragerði sáu á eftir sterkum leikmönnum í sumar. Marvin Valdimarsson fór í Stjörnuna, Oddur Ólafsson fór til náms erlendis og Viðar Örn Hafsteinsson er kominn á heimaslóðir og leikur með Hetti á Egilsstöðum í sumar. Tveir sterkir KR-ingar eru þó mættir í Hveragerði, þeir Ellert Arnarson og Darri Hilmarsson. Það verða því miklar byrgðar lagðar á Andre Dabney, Svavar Pál Pálsson og Darra Hilmarsson í vetur og munu þeir væntanlega gera sitt besta til að ofangreind spá gangi ekki upp.
 
11. sæti – Tindastóll
Að þessu sinni er Tindastól spáð falli í 1. deild. Enn ríkir óvissa um hvort Svavar Atli Birgisson ætli sér að vera með Stólunum í vetur og ljóst er að félagið mun þurfa að stóla mikið á unga og óreynda leikmenn og þann hóp munu Helgi Rafn Viggósson og Friðrik Hreinsson þurfa að leiða eins og herforingjar ásamt þeim erlendu leikmönnum sem ráðnir hafa verið til félagsins. Borce Ilievski tók við liðinu í sumar af Karli Jónssyni og bíður hans ærinn starfi. Þó Stólarnir séu sýnd veiði þá eru þeir ekki gefin veiði og menn arka ekki inn í Síkið til að sækja sjálfsagðan sigur.
 
10. sæti – Haukar
Hafnfirðingar halda sæti sínu í úrvalsdeild samkvæmt spánni en Haukar höfðu betur gegn Valsmönnum á síðustu leiktíð í 1. deildinni í baráttu um laust sæti í úrvalsdeild. Pétur Ingvarsson verður áfram við stjórnartaumana og fær það vandasama verkefni með ungt en efnilegt Haukalið að tryggja félaginu sæti í deild þeirra bestu. Haukar munu tefla fram tveimur erlendum leikmönnum og annar þeirra er þekkt stærð, Semaj Inge, sterkur varnarmaður sem vafalítið mun reynast Haukum vel. Sævar Haraldsson fær svo það verkefni að miðla af reynslu sinni til yngri leikmanna liðsins.
 
9. sæti – KFÍ
Rétt eins og nýliðar Hauka er KFÍ spáð áframhaldandi veru í úrvalsdeild. KFÍ hafði nokkra yfirburði í 1. deildinni á síðustu leiktíð en sluppu samt ekki við breytingar þetta sumarið. Nýr þjálfari tók við karlaliðinu, B.J. Aldridge og hefur hann þegar sett sín fingraför á hópinn sem m.a. sló Stjörnuna út í Lengjubikarnum. Ísfirðingar verða vafalítið erfiðir heim að sækja í vetur en fyrir þá sem eiga ekki kost á því að leggja land undir fót er engin þörf á því að örvænta því heimamenn stefna að því að sýna beint frá öllum leikjum karlaliðsins í Iceland Express deildinni.
 
8. sæti – ÍR
Sigursælasta körfuboltalið landsins rétt skríður inn í úrslitakeppnina í spá ársins og Breiðhyltingar mega enn bíða eftir Sveinibirni Claessen sem verður frá til áramóta sökum meiðsla. Hreggviður Magnússon sagði skilið við ÍR í sumar en hópurinn í Hellinum er samt breiður og mun mikið mæða á köppum á borð við Nemanja Sovic, Kelly Beidler og Eirík Önundarson um leið og hann nær sér í 100% form en þessi reynslubolti á enn nokkur trix uppi í erminni. Einnig hefur Kristinn Jónasson verið að glíma við bakmeiðsli og mikilvægt fyrir ÍR að ná honum góðum fyrir tímabilið.
 
7. sæti – Grindavík
Grindavík datt út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar á síðasta tímabili gegn Snæfell og tapaði gegn Snæfell í úrslitum bikarsins. Friðrik Pétur Ragnarsson var þá við stjórnartaumana en hann ákvað að halda ekki áfram með liðið og því tók Helgi Jónas Guðfinnsson við gulum í sumar. Tveir sterkir póstar eru farnir úr Röstinni í þeim Arnari Frey Jónssyni og Brenton Birmingham en gulir endurheimtu Helga Björn Einarsson frá Haukum. Að þessu sinni er Grindavík spáð í 7. sæti og ná gulir samkvæmt þessu rétt inn í úrslitakeppnina.
 
6. sæti – Fjölnir
Spútniklið deildarinnar í fyrra þrátt fyrir að hafa ekki náð inn í úrslitakeppnina. Nú eru bornar meiri væntingar til ungra og efnilegra liðsmanna Fjölnis undir stjórn Tómasar Holton eftir að Bárður Eyþórsson sagði starfi sínu lausu. Fjölnismönnum hefur gengið vel á undirbúningstímabilinu þrátt fyrir að hafa leikið án erlends leikmanns en við þann tóninn verður ekki kveðið í úrvalsdeildinni og hafa Grafarvogsmenn þegar tryggt sér Bandaríkjamann. Liðinu er spáð í 6. sæti og á vafalítið eftir að rífa slatta af stigum til sín á tímabilinu.
 
5. sæti – Njarðvík
Í fimmta sæti koma Njarðvíkingar sem verða án miðherjans Friðriks Stefánssonar sem ku vera hættur. Þá er Magnús Þór Gunnarsson kominn til Danmerkur og tveir af reynslumestu leikmönnum landsins horfnir á braut. Páll Kristinsson er enn við lýði og mun fá það hlutverk að deila úr viskubrunni sínum innan liðsins. Í sumar gekk Lárus Jónsson svo í raðir Njarðvíkinga en hitinn og þunginn í leik grænna verður á herðum Jóhanns Árna Ólafssonar og Guðmundar Jónssonar undir reynslumikilli leiðsögn Páls Kristinssonar.
 
4. sæti – Stjarnan
Eftir að Stjarnan tryggði sér í sumar krafta Marvins Valdimarssonar og Daníels Guðmundssonar töldu margir sig hafa fundið næsta meistaraefnið. Stjarnan dúkkaði þó upp í 4. sæti í þessari spá en Garðbæingar munu tefla fram sterku liði á komandi tímabili með þrjár massívar stigamaskínur innan sinna raða í þeim Marvin Valdimarssyni, Jovan Zdravevski og Justin Shouse. Þessir þrír leikmenn og Fannar Freyr Helgason munu fara fyrir Stjörnunni í vetur en bekkurinn er líka djúpur og því athyglisvert að sjá hvernig Teitur Örlygsson, nýji óskasonur Garðabæjar, mun halda á spilunum.
 
3. sæti – Keflavík
Silfurlið síðasta tímabils hefur haldið sér nokkurnveginn óbreytt nema að á braut hefur horfið jaxlinn Sverrir Þór Sverrisson og nýr erlendur leikmaður er kominn í Toyota-höllina. Gunnar Einarsson, Hörður Axel Vilhjálmsson og Sigurður Þorsteinsson verða í eldlínunni hjá Keflavík með Jón ,,Horace Grant“ Hafsteinsson sér þett við bak tilbúinn að sópa upp allt það sem fellur til hjá hinum þremur. Guðjón Skúlason verður áfram við stjórnartaumana en hann stýrði liðinu í fyrra sem vann til silfurverðlauna.
 
2. sæti – Snæfell
Gullgrafarnir sætta sig vísast ekki við að vera spyrnt saman við silfrið enda síðasta leiktíð og upphaf þessarar með glæstasta móti. Hólmarar eru ríkjandi Íslands-, bikar- og Lengjubikarmeistarar og virðast óseðjandi í titlaáti sínu. Þeirra Hlyns Bæringssonar og Sigurðar Þorvaldssonar nýtur ekki við á þessu tímabili en Sean Burton sneri í Hólminn á ný og þar fer rjúkandi byssa. Emil Þór Jóhannsson vakti síðan verðskuldaða athygli á síðasta tímabili. Einkasonur Stykkishólms, Jón Ólafur Jónsson, fær töluvert meiri ábyrgð innan liðsins að þessu sinni en hann og fyrirliðinn Pálmi Freyr Sigurgeirsson verða í stafni Snæfells þennan veturinn með Emil, Burton og Amoroso sér til aðstoðar.
 
1. sæti – KR
Spekingar Karfan.is spá KR Íslandsmeistaratitlinum í ár. Vesturbæingar eru með valinn mann í hverju rúmi og í sumar bættist Hreggviður Magnússon við hópinn svo KR-ingar eru með stórt en nokkuð hreyfanlegt lið. Væntanlegur er bandarískur leikmaður í Vesturbæinn en KR-ingar hafa leikið án erlends leikmanns allt undirbúningstímabilið. Miklar væntingar eru bundnar við Pavel Ermolinskij enda einn sterkasti leikmaður deildarinnar og fer vart inn á parketið án þess að landa þrennu, tók hann aðeins 25 mínútur í síðasta leik sem hann spilaði! Turnarnir Fannar Ólafsson og Jón Orri Kristjánsson verða illir viðureignar í teignum ásamt Finni Magnússyni. KR mátti þó sjá á eftir Darra Hilmarssyni í sumar en þar fór einn mesti baráttujaxl sem Vesturbærinn hefur látið frá sér. Hrafn Kristjánsson þjálfari liðsins hefur úr góðum hópi að spila og því ætti það ekki að valda neinum andvökunóttum að KR hafi verið spáð Íslandsmeistaratitlinum.

Keppni í Iceland Express deild karla hefst svo fimmtudaginn 7. október næstkomandi:
 
7. október:
KR-Stjarnan
Keflavík-ÍR
KFÍ-Tindastóll
 
8. október:
Fjölnir-Snæfell
Njarðvík-Grindavík
Hamar-Haukar
 
Lokahnykkur undirbúningstímabilsins er svo um helgina þegar meistarakeppnin fer fram en þá mætast Íslands- og bikarmeistarar síðasta árs. Í karlaflokki mætast Snæfell og Grindavík en í kvennaflokki mætast KR og Haukar en báðir leikirnir fara fram í Stykkishólmi.