Karlalið Keflavíkur áfram í Lengjubikarnum
Karlalið Keflavíkur sló Hamar út í 8-liða úrslitum Lengjubikarsins í kvöld. Lokatölur leiksins voru 97-85 fyrir Keflavík.
Sigurinn var langt í frá öruggur í kvöld gegn baráttuglöðum Hamarsmönnum. Leikurinn byrjaði þó vel fyrir Keflavík sem sýndi fína takta á upphafsmínútum leiks. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 29-16. Í öðrum leikhluta héldu Keflvíkingar uppteknum hætti og ungu strákarnir fengu að spreyta sig. En eitthvað brast í leik liðsins og Hamarsmenn fóru á flug. Á lokamínútum leikhlutans náðu þeir að skora 30 stig gegn 10 stigum hjá Keflavík og skyndilega var leikurinn galopinn. Staðan í hálfleik var 51-51, en Keflvíkingar höfðu í leikhlutanum náð 20 stiga forskoti á Hamar. Í 3ja leikhluta skiptust liðin á að skora jafnt út leikhlutann og ekki útséð hvaða lið myndi hafa sigur í leiknum þegar 4. leikhluti hófst. Staðan eftir 3ja leikhluta var 74-72 fyrir Keflavík. Í 4. leikhluta ætluðu bæði lið sér sigur og það var ekki fyrr en um 3 mínútur voru eftir af leiknum að Keflvíkingar keyrðu fram úr Hamarsmönnum. Lokatölur leiksins 97-85 fyrir Keflavík.
Þrátt fyrir sigur hjá Keflavík í kvöld, þá vantar að smyrja liðið aðeins betur. Værukærir í sókninni á köflum og alltof margir tapaðir boltar. Skotnýting var þó fín. 25/42 (59,5%) í 2ja og 9/19 (47,4%) í 3ja. Valentino Maxwell átti ágætis leik, en hann skoraði úr 8 af 10 í 2ja stiga skotum sínum.
Atkvæðamestir hjá Keflavík voru Hörður Axel Vilhjálmsson með 23 stig, Valentino Maxwell með 20 stig og Sigurður Þorsteinsson með 15 stig. Hjá Hamar var Svavar Pálsson með 23 stig, Nerijus Taraskus 18 stig og Darri Hilmarsson 15 stig.