Fréttir

Karfa: Karlar | 1. nóvember 2009

Karlarnir sigra Snæfell

Keflavíkur-drengir lönduðu góðum sigri í gærkvöldi gegn Snæfell, en lokatölur voru 90-76 fyrir Keflavík. Það fór ekki framhjá neinum að það var góð og þétt vörn sem skóp sigurinn, en þó vantar ýmislegt í sóknarleikinn sem vonandi mun batna eftir því sem líður á tímabilið. Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur, nefndi einmitt þennan punkt í viðtali við vf.is.

Leikurinn sjálfur var jafn þangað til í hálfleik. Í seinni hálfleik tóku Keflavíkur-drengir öll völd og grilluðu Snæfells-drengi. Ágætis hittni var utan af velli og komu þristarnir frá Þresti sér mjög vel, en hann átti nokkra svoleiðis í seinni hálfleik, sem gerði það að verkum að Snæfells-drengir áttu lítil svör. Eitthvað fór dómgæslan í taugarnar á Inga Þór, þjálfara Snæfells, en eftir að hafa fengið á sig tæknivillu fyrir röfl fyrr í leiknum, þá var hann rekinn úr húsi þegar um 3 mínútur lifðu af leiknum. Það skipti þó ekki sköpum, þar sem Keflavíkur-drengir voru búnir að tryggja sér sigurinn með góðu forskoti.

Hjá Keflavík var Rahshon Clark atkvæðamestur með 21 stig, en á eftir honum kom Þröstur "baneitraði þristur" Jóhannsson með 19 stig. Hjá Snæfell var Hlynur Bæringsson með 20 stig, en á eftir honum kom Jón Ólafur Jónsson með 14 stig.

Segja má að leikur þessi hafi verið nokkurs konar prófraun fyrir Keflavíkur-liðið, en Snæfell var spáð öðru sætinu fyrir tímabilið sem nú líður. Keflavíkur-liðið stóðst þessa prófraun með prýði og vonum við að þeir muni halda áfram á sömu braut.

Áfram Keflavík!